Árásarmaður hóf skothríð um klukkan 9:45 að íslenskum tíma, eða 10:45 að hollenskum tíma, í morgun. Þegar þetta er ritað er minnst einn sagður hafa látist í árásinni og sex eru særðir.
Guðrún Þorsteinsdóttir stundar nám við Háskólann í Utrecht. Hún er búsett í grennd við torgið þar sem árásin var gerð í morgun en var mætt í skólann þegar fréttastofa náði tali af henni fyrir hádegi. Guðrún segist hafa fengið litlar upplýsingar um árásina frá yfirvöldum framan af morgni en nú skömmu fyrir klukkan 12 að íslenskum tíma var skólanum lokað.
„Búið að stigmagnast heldur núna, búið að loka öllum skólanum. Enginn kemst út eða inn,“ segir Guðrún.

Óhugnanlegt að vita ekki neitt
Þá segir hún það afar óþægilegt að vita til þess að árásin hafi verið gerð svo nærri heimili hennar.„Mjög óþægilegt. Vinkona mín var þarna í morgun og mér finnst það líka ótrúlega óþægilegt. Og það er ekki búið að ná þessum manni, eða mönnum, og það er líka mjög óhugnanlegt. Að vita ekki neitt.“
Aðspurð segir Guðrún Utrecht afar friðsæla borg. Það hafi því komið henni á óvart að frétta af árásinni innan borgarmarkanna.
„Já, mjög friðsæl. Þetta er svona eins og lítil Amsterdam, mjög kósí og hugguleg borg. Mér finnst aldrei neitt gerast hérna, svo kemur þetta. Það kom mér mjög á óvart.“
Öryggisgæsla hefur verið aukin í Hollandi í kjölfar árásarinnar, til dæmis á flugvöllum og í skólum. Þá hefur mikill viðbúnaður lögreglu verið við torgið þar sem árásin var gerð en árásarmaðurinn er sagður hafa flúið vettvang á rauðum bíl.