85 prósent þingkvenna upplifa kynbundið andlegt ofbeldi á þjóðþingum. Þetta kemur fram í rannsókn Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins sem kynnt verður á opnum fundi stjórnmálaflokkanna í fyrramálið.
Í kjölfar #metoo byltingarinnar hafa stjórnmálaflokkar á Alþingi tekið höndum saman í annað sinn og efna nú til opins morgunverðarfundar á Grand Hótel í fyrramálið.
„Það er góð samvinna þvert á flokka sem skiptir miklu máli því þetta er mikilvægara mál en svo að það eigi að fara í flokkspólitískar grafir með þetta,“ sagði Anna Lísa Björnsdóttir, samskipta- og viðburðastjóri VG.
Sérstakur gestur fundarins verður Martin Chungong framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins sem kynnir skýrslu um niðurstöður viðamikillar rannsóknar Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins á kynjamismunun og kynbundnu ofbeldi og áreiti gegn konum í þjóðþingum Evrópu.
„Niðurstöðurnar voru sláandi. 85 prósent þingkvenna hafa lent í því að verða fyrir andlegu ofbeldi eða áreiti á þjóðþingum í Evrópu og þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða, tala um og ræða,“ sagði Anna Lísa.Þá eru þingkonur undir 40 ára aldri líklegri til að verða fyrir áreiti og kvenkyns starfsmenn þinga verða frekar fyrir kynferðislegu ofbeldi en þingkonur.
Í pallborði á morgun verða þingkonur allra þingflokka. Fundurinn er opinn öllum og fer fram klukkan hálf níu í fyrramálið á Grand Hótel.
Innlent