Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað að hún muni tjá sig við fjölmiðla eftir þingflokksfund Vinstri grænna sem hófst klukkan eitt í dag.
Hefur Katrín ekki tjáð sig hingað til um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu sem úrskurðaði að skipun dómara í Landsrétt hefði brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.
Reglubundnir fundir þingflokka eru í dag og þar á meðal hjá Sjálfstæðisflokknum sem hófst einnig klukkan eitt í dag. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mætti í þinghúsið rétt fyrir klukkan hálf tvö í dag en kaus að tjá sig ekki við fjölmiðlamenn sem leituðu viðbragða hjá honum og sagðist vera of seinn á fund.
Staða Sigríðar Á. Andersen sem dómsmálaráðherra verður vafalítið rædd á fundum þingflokkanna en lítið hefur heyrst frá stjórnarþingmönnum vegna málsins. Má vænta að það verði tekið til umræðu á fundi ríkisstjórnar sem fer fram klukkan 16 í dag.
Má búst við að Katrín tjá sig við fjölmiðlamenn í þinghúsinu um klukkan 15 í dag en Vísir verður með beina útsendingu frá því.
Katrín ætlar að tjá sig eftir þingflokksfund
