Enski boltinn

Frír bjór og bollakaka fyrir þá sem mæta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Leicester City.
Stuðningsmenn Leicester City. Getty/Vichan Poti
Leicester City ætlar að halda upp á afmæli Vichai Srivaddhanaprabha með sérstökum hætti þegar liðið fær Bournemouth í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Vichai Srivaddhanaprabha var eigandi Leicester þar til að hann lést í þyrluslysi í október síðastliðnum ásamt fjórum öðrum fyrir utan King Power leikvanginn. Vichai hefði orðið 61 árs gamall 4. apríl.





Þetta verður fyrsta afmæli Vichai Srivaddhanaprabha eftir að hann lést en eigandinn var mjög vinsæll og virkur þátttakandi í samfélaginu í Leicester.

Hann var alltaf mjög gjafmildur í kringum afmælið sitt meðan hann lifði og stuðningsmenn Leicester City nutu alltaf góðs á því á heimaleikjum liðsins í kringum afmælið.

Hápunkturinn á hans tíma var án efa þegar Leicester City kom öllum að óvörum og varð Englandsmeistari vorið 2016.

Fjölskylda Vichai Srivaddhanaprabha vill minnast hans með því að halda í þessa hefð að koma færandi hendi í tilefni afmælisins.

Til að minnast Vichai þá ætlar Leicester City að bjóða þeim sem mæta á leik Leicester og Bournemouth á King Power leikvanginum upp á bjór og bollaköku. Fjölskylda Srivaddhanaprabha mun taka á sig reikninginn.

Þeir sem drekka ekki og vilja ekki bjór geta fengið vatn. Gestirnir verða líka að nýta þetta boð áður en leikurinn fer í gang (fyrir klukkan 14.45) en hann hefst klukkan þrjú á morgun.

Það er líka tekið fram að það er bara eitt bjórglas og ein bollakaka á hvern miða. 

Getty/James Williamson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×