Enski boltinn

Knattspyrnudómararnir ætla í verkfall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Knattspyrnudómari með rautt spjald á lofti en myndin tengist fréttinni þó ekki.
Knattspyrnudómari með rautt spjald á lofti en myndin tengist fréttinni þó ekki. Getty/Tony Feder
Það er óhætt að segja að hegðun knattspyrnumanna á Ermarsundseyjunni Jersey sé ekki til mikillar fyrirmyndar. Hún er svo slæm að dómararnir á eyjunni eru búnir að fá alveg nóg.

Knattspyrnudómararnir á Jersey hafa tilkynnt að þeir ætli í verkfall og það verði engir dómarar til taks í knattspyrnuleikjum á laugardaginn kemur.

Þetta hefur skiljanlega mikil áhrif á alla fótboltaleiki á eyjunni en þar á meðal er leikur á milli tveggja bestu liða eyjarinnar sem eru St Paul's og St Peter.

Það er því ekki eintóm tilviljun að dómararnir velji þennan dag fyrir verkfallið sitt því leikur St Paul's og St Peter gæti ráðið því hvort liðið verður meistari.





Knattspyrnudómararnir höfðu áður hótað því að hætta í október eftir að hafa gefið tíu rauð spjöld í tólf leikjum. Öll komu spjöldin í leikjum sem fóru fram 29. september en þessi dagur fékk fljótlega nafnið „Rauði laugardagurinn“ á Jersey.

Það sem fyllti mælinn voru hins vegar líkamsárás á einn knattspyrnudómara og stanslausar svívirðingar frá leikmönnum, þjálfurum og áhorfendum. Ástandið var orðið algjörlega óþolandi og dómarar segja nú hingað og ekki lengra.

Knattspyrnudómarasamband Jerseyjar, JFRA,  greindi frá því að þrír táningsdómarar hafi neyðst til þess að læsa sig inn í búningsklefanum eftir einn leik eftir að svívirðingar leikmanna, þjálfara þeirra og sumra foreldra héldu áfram löngu eftir leik.

JFRA sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur fram að knattspyrnudómarar Jerseyjar verði í verkfalli laugardaginn 30. mars 2019.

„Það var ákveðið að við þurfum að senda skilaboð út til félaga, leikmanna á öllum aldri, stjóra og þjálfara, foreldra og áhorfenda um að svona ástand og svona hegðun gengur ekki lengur. Ef við förum ekki að taka á þessu núna þá mun þessi fótboltaeyja missa dómara sína sem hún hefur ekki efni á,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudómarasambandi Jerseyjar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×