Enski boltinn

Gylfi mætti í grunnskóla í Liverpool og tók að sér smá íslenskukennslu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gefur hér liðsfélaga sínum góð ráð í leik í vetur.
Gylfi Þór Sigurðsson gefur hér liðsfélaga sínum góð ráð í leik í vetur. Getty/Robbie Jay Barratt
Gylfi Þór Sigurðsson og leikmenn Everton reyna eftir fremsta megni að hafa góð áhrif á nágrenni sitt í Liverpool og um leið „búa til“ jákvæða mynd af félaginu út í þjóðfélaginu og nýja stuðningsmenn.

Eitt slíkt verkefni íslenska landsliðsmannsins var heimsókn í grunnskóla sem er til húsa rétt við æfingasvæði Everton-liðsins í USM Finch Farm.

Gylfi var ekki einn á ferð heldur var með honum franski miðvörðurinn Kurt Zouma. Zouma er í láni hjá Everton frá Chelsea.





Báðir voru að fara að breytast úr liðsfélögum í mótherja því fram undan var landsleikhlé þar sem Gylfi og félagar í íslenska landsliðinu tóku á móti Kurt Zouma og félögum í franska landsliðinu í undankeppni EM 2020.

Þeir Gylfi Þór Sigurðsson og Kurt Zouma tóku að sér kennslu í þessum tíma og kynntu krakkana fyrir sínum þjóðum.

Það var farið yfir siði og venjur í hvoru landi fyrir sig, smakkað á mat frá Íslandi og Frakklandi og þá fengu krakkarnir að reyna sig við íslensku og frönsku. Gylfi mætti að sjálfsögðu með íslenska skyrið.

„Það var gaman að hitta krakkana og ég held að þau hafi haft gaman af þessu. Það er gott fyrir þau að fá að kynnast öðrum þjóðum og öðrum tungumálum alveg eins og það er fyrir okkur. Ég er viss um að þetta var skemmtilegur tími fyrir þau,“ sagði Gylfi.

„Ég man enn þá eftir því þegar ég hitti leikmann sem var þá að spila fyrir landsliðið og ég leit upp til. Maður gleymir aldrei slíkum stundum og ég held að þessir krakkar munu ekki gleyma þessum degi,“ sagði Gylfi.

Það má sjá stutt myndband um heimsókn Gylfa og Kurt Zouma hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×