Enski boltinn

Richarlison: Stundum vinn ég Gylfa en stundum tapa ég líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Richarlison fagnar marki Gylfa Þórs Sigurðssonar með því að stökkva upp á bak hans.
Richarlison fagnar marki Gylfa Þórs Sigurðssonar með því að stökkva upp á bak hans. Getty/Simon Stacpoole/
Richarlison og Gylfi æfa skotin sín saman eftir æfingar Everton liðsins og þar er alltaf innbyrðis keppni.

Æfingin er ekki búin þegar hún er „búin“ hjá þremur leikmönnum enska úrvalsdeildarliðsins Everton og það kemur fáum íslenskum knattspyrnuáhugamönnum á óvart að Gylfi Þór Sigurðsson sé í þeirra hópi.

Gylfi Þór Sigurðsson og hinn brasilíski Richarlison eru markahæstu leikmenn Everton-liðsins á tímabilinu og það er kannski engin tilviljun. Þeir eru frábærir í fótbolta en þeir eru líka tilbúnir að leggja mikið á sig aukalega.

Hinn 22 ára gamli Dominic Calvert-Lewin er líka að komast í gang og hefur skorað tvö mörk í síðustu fjórum leikjum. Hann er í þriggja manna tríóinu með Gylfa og Richarlison sem æfa saman skotin eftir æfingar Everton.





Richarlison segir frá þessum skotæfingum með Gylfa í viðtali við heimasíðu Everton.

„Ég er alltaf að vinna í skotunum mínum á æfingunum. Eftir hverja æfingu, þá eyðum ég, Dominic og Gylfi tíu til tuttugu mínútum í það að æfa skotin okkar,“ sagði Richarlison.





„Þetta er gott fyrir sjálfstraustið okkar. Við vitum líka að það getur komið upp sú staða í leikjum að langskot frá einum okkar getur ráðið úrslitum í leik. Knattspyrnustjórinn vill að við séum hugrakkir og að við reynum alltaf að skora mörk,“ sagði Richarlison.

„Ég og Gylfi erum líka alltaf í vinalegri keppni þegar við æfum. Stundum vinn ég en stundum tapa ég líka. Þetta fer fram og til baka,“ sagði Richarlison.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×