Enski boltinn

Carrager: Sarri gaf skít í Hudson-Odoi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hudson-Odoi í fyrsta leik sínum í byrjunarliði enska landsliðsins.
Hudson-Odoi í fyrsta leik sínum í byrjunarliði enska landsliðsins. vísir/getty
Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool og álitsgjafi hjá Sky Sports, furðar sig á hversu illa Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, fylgdist með Callum Hudson-Odoi í landsleikjahléinu.

Hudson-Odoi lék sinn fyrsta landsleik þegar hann kom inn á sem varamaður í 5-0 sigri Englands á Tékklandi í undankeppni EM 2020 á föstudaginn í þarsíðustu viku. Hann var svo í byrjunarliði Englands gegn Svartfjallalandi og lagði upp eitt mark í 1-5 sigri enskra á mánudaginn var.

Sarri sagðist aðeins hafa horft á 20 mínútur af leik Englands og Svartfjallalands og að Hudson-Odoi hafi ekki náð sér á strik á þeim tíma. Þau ummæli komu Carragher á óvart.

„Það truflaði mig að hann skyldi segja þetta; að hann hafi bara horft á 20 mínútur og strákurinn hafi ekki einu sinni spilað vel þá,“ sagði Carragher.



„Þetta var fyrsti landsleikurinn hans. Af hverju var hann ekki að horfa? Hann þurfti vissulega að fylgjast með mörgum leikmönnum en þeir eru flestir þekktar stærðir. Þetta er ungur strákur sem félagið er að berjast við að halda. Ekki gefa skít í fyrsta byrjunarliðsleikinn hans með landsliðinu sem var kannski hápunkturinn á ferli hans til þessa.“

Hudson-Odoi sat allan tímann á varamannabekknum þegar Chelsea vann Cardiff City í dag, 1-2. Hann hefur ekki byrjað deildarleik fyrir Chelsea og Sarri hefur verið gagnrýndur fyrir að nota strákinn sparlega. Bayern München hefur borið víurnar í Hudson-Odoi og óvíst er hvort hann verður áfram í herbúðum Chelsea.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×