Enski boltinn

Klopp: Ljótur sigur en hverjum er ekki sama?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrjú stig og Liverpool komið á toppinn. Klopp var ánægður með dagsverkið.
Þrjú stig og Liverpool komið á toppinn. Klopp var ánægður með dagsverkið. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum hinn kátasti eftir sigurinn á Tottenham í dag. Hann viðurkenndi þó að Rauði herinn hefði ekki spilað vel í seinni hálfleiknum.

Sigurmark Liverpool kom á lokamínútunni þegar boltinn fór af Toby Alderweireld og í netið. Með sigrinum komst Liverpool á topp ensku úrvalsdeildarinnar.

„Ég var nokkuð rólegur. Þessi staða kom óvænt upp. Ég sá skallann frá Mohamed Salah og svo ekki meir. Ég hafði ekki hugmynd hvernig boltinn fór inn,“ sagði Klopp í leikslok.

„Ég var ekki sáttur með að við fengum á okkur mark en kannski þurftum við þess. Í fyrri hálfleik skoruðum við stórkostlegt mark og fengum frábær færi. Í þeim seinni vorum við þungir og náðum okkur ekki á strik.“

Klopp var ánægður með hvernig hans menn brugðust við jöfnunarmarki Tottenham.

„Við komumst aftur í gang eftir jöfnunarmarkið og fengum færi. Við erum að keppa um titilinn við besta lið í heimi [Manchester City] og vorum að spila við eitt það besta í dag. Þetta var erfitt verkefni. Það eru til 500 leiðir til að vinna leiki og sigurinn í dag var frekar ljótur. En hverjum er ekki sama?“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×