Fótbolti

Dómari bað annan dómara um að giftast sér rétt fyrir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Annar aðstoðardómarinn kominn niður á skeljarnar.
Annar aðstoðardómarinn kominn niður á skeljarnar. Skjámynd/Twitter/@Emishor
Sætasta knattspyrnufrétt helgarinnar var eflaust sú sem barst alla leið frá Rúmeníu.

Áhorfendurnir á leik í fjórðu deildinni í Rúmeníu voru örugglega mjög hissa þegar annar aðstoðardómara leiksins fór niður á annað hnéð.

Fljótlega fór það ekki fram hjá neinum að þarna voru áhorfendurnir að fá bónorð í kaupbæti á fótboltaleik.

Annar aðstoðardómari leiksins bað nefnilega hinn aðstoðardómarann um að gifta sér og hún sagði já.

Rúmenski blaðamaðurinn Emanuel Rosu sagði frá þessu á Twitter síðu sinni og vakti um leið heimsathygli á þessum óvenjulega atburði á knattspyrnuleik.





Það vissu greinilega einhverjir af þessu því tveir ljósmyndarar voru mættir á staðinn áður en aðstoðardómarinn fór á skeljarnar. Ekki var hægt að sjá betur en að fjölskyldumeðlimir og vinir þeirra hafi verið mætt með spjöld upp í stúkuna.

Aðstoðardómarinn var líka með hringinn í vasanum og hún kláraði því leikinn með nýjan trúlofunarhring á fingrinum.

Aðaldómari leiks hélt sér í góðri fjarlægð en það er ekki hægt að segja annað en að hann hafi verið svolítið út undan.

Allt gerðist þetta fyrir leikinn og þau áttu því eftir að skila af sér 90 mínútum plús af einbeitingu og vonandi réttum dómum. Það fóru hins vegar engar sögur af því hvernig parinu tókst að halda einbeitingunni á leiknum nýbúin að játast hvoru öðru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×