Tap hjá Leeds │Sjötti sigurinn í röð hjá Villa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Che Adams skoraði sigurmark Birmingham
Che Adams skoraði sigurmark Birmingham vísir/getty
Leeds United er dottið niður í umspilssæti í ensku B-deildinni í fótbolta eftir tap fyrir Birmingham í dag. Aston Villa vann sjötta leikinn í röð.

Leeds og Sheffield United berjast hart um annað sæti ensku B-deildarinnar en Norwich virðist ætla að taka toppsætið nokkuð örugglega. Norwich vann QPR 4-0 í dag og er með 84 stig eftir 40 leiki af 46.

Sheffield United tók annað sætið af Leeds í dag þegar liðið vann Preston á útivelli 1-0 á sama tíma og Leeds tapaði fyrir Birmingham.

Birmingham hafði tapað síðustu fimm leikjum þegar Leeds mætti í heimsókn. Heimamenn voru miklu minna með boltann í leiknum en það kom ekki að sök því þeir náðu að koma boltanum í netið, annað heldur en gulir gestirnir.

Che Adams skoraði eina mark leiksins með góðu skoti á 29. mínútu, stuttu eftir að Patrick Bamford skaut í stöngina fyrir Leeds.

Leeds náði aðeins einu skoti af níu á markið í leiknum á meðan Birmingham setti sjö af tíu skotum sínum á markið. Þetta tap gæti reynst Leeds dýrkeypt, en Birmingham er enn ekki sloppið alveg frá fallbaráttunni.

Reading er einnig í miðri fallbaráttunni, í síðasta örugga sætinu með 40 stig, stigi meira en Rotherham. Reading byrjaði vel á útivelli gegn Hull þegar Lewis Baker skoraði með skoti fyrir utan teig eftir rétt korters leik.

Kamil Grosicki jafnaði leikinn fyrir heimamenn og Marc Pugh kom þeim yfir í seinni hálfleik. Grosicki tryggði svo 3-1 sigurinn.

Aston Villa vann sjötta leikinn í röð með dramatískum útisigri á Sheffield Wednesday. Þetta var fyrsta tap Wednesday síðan Steve Bruce tók við liðinu.

Það var allt jafnt, 1-1, þegar komið var inn í uppbótartíma seinni hálfleiks en þá settu Albert Adomah og Tammy Abraham sitt hvort markið og tryggðu Villa 3-1 sigur.

Birkir Bjarnason var ekki í leikmannahópi Aston Villa og Jón Daði Böðvarsson er enn frá í liði Reading en hann hefur verið að glíma við meiðsli.

Úrslit dagsins:

Norwich - QPR 4-0

Birmingham - Leeds 1-0

Blackburn - Stoke 0-1

Bolton - Ipswich 1-2

Brentford - Derby 3-3

Bristol City - Wigan 2-2

Hull - Reading 3-1

Millwall - West Brom 2-0

Preston - Sheffield United 0-1

Rotherham - Nottingham Forest 2-1

Sheffield Wednesday - Aston Villa 1-3

Swansea - Middlesbrough 3-1

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira