Erlent

Vörpuðu sprengju á smástirni

Samúel Karl Ólason skrifar
Tilraunum þessum er ætlað að varpa ljósi á uppruna vatns og lífs á jörðinni og veita vísindamönnum aukinn skilning á uppruna sólkerfisins.
Tilraunum þessum er ætlað að varpa ljósi á uppruna vatns og lífs á jörðinni og veita vísindamönnum aukinn skilning á uppruna sólkerfisins. Vísir/JAXA

Japanskir geimvísindavísindamenn notuðu geimfarið Hayabusa 2 til að varpa sprengju á smástirnið Ryugu. Áður hafði geimfarið „skotið“ smástirnið en tilraunum þessum er ætlað að varpa ljósi á uppruna vatns og lífs á jörðinni og veita vísindamönnum aukinn skilning á uppruna sólkerfisins. Ryugu er talið vera um 4,6 milljarða ára gamalt og mun það vera að mestu úr kolefni. Talið er að þar megi einnig finna vatn.

Koparplötu, sem var hlaðin sprengiefni, var skotið frá Hayabusa 2 og að yfirborði Ryugu og átti þannig að mynda gíg á smástirninu. Með því að skoða upptökur af sprengingunni vonast vísindamenn til þess að sjá nákvæmlega úr hverju smástirnið myndaðist.

Einnig er vonast til þess að hægt verði að ná sýnum úr gígnum sem hafa ekki orðið fyrir mikilli geislun á þeim milljörðum ára sem Ryugu hefur flotið um geiminn.

Sjá einnig: Japanskt geimfar skaut smástirni

Vitað er að geimfarið er í heilu lagi eftir að hafa varpað sprengjunni en ekki liggur fyrir hvort almennilegur gígur myndaðist.

Hayabusa2 hefur verið á braut um Ryugu frá því í júní í fyrra en því var skotið á loft í byrjun desember 2014. Starfsmenn Geimvísindastofnunar Japan, JAXA, áætla að koma geimfarinu aftur til jarðarinnar á næsta ári. Það mun verja næstu mánuðum á braut um Ryugu og safna frekari upplýsingum um smástirnið.

Þegar Hayabusa 2 kemst aftur til jarðarinnar mun það varpa því grjóti og ryki sem það hefur safnað til jarðar í sérstakri hvelfingu sem er útbúin fallhlíf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×