Valsmenn urðu fyrir gríðarlegu áfalli í gærkvöldi þegar þeirra besti maður í vetur, Magnús Óli Magnússon, varð fyrir alvarlegum hnémeiðslum.
„Hann fékk mjög slæmt högg á hnéð. Þetta var bara slys eins og gerist í íþróttum. Þetta er mikið áfall,“ segir Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Valsliðsins, en hann segir engar líkur á því að Magnús Óli snúi aftur í vetur.
„Þetta er búið hjá honum. Því miður fyrir hann sem og okkur.“
Magnús Óli hefur átt frábæran vetur fyrir Valsmenn og dregið vagninn fyrir liðið oftar en einu sinni í vetur. Hann er þeirra markahæsti maður með 108 mörk og er næststoðsendingahæstur í liðinu.
Frammistaða hans skilaði honum svo í íslenska landsliðshópinn á dögunum sem hann þarf nú að draga sig úr.
Leikmaðurinn fór í myndatöku í morgun vegna meiðslanna og það ætti því að skýrast síðar í dag hversu lengi hann verður frá en fastlega má gera ráð fyrir því að það verði drjúgur tími.
Handbolti