Aðkoma stjórnvalda var lykilatriði í að aðilar vinnumarkaðarins og atvinnulífsins náðu kjarasamningum. Þessi víðtæka samvinna á að bæta kjör fyrst og fremst hjá láglaunafólki. Nítján aðildarfélög Starfsgreinasambandsins og níu félög innan Landssambands verslunarmanna undirrituðu nýja kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins seint í gærkvöldi.
Boðað hafði að nýir kjarasamningar um þrjátíu stéttarfélaga við Samtök atvinnulífsins yrðu undirritaðir í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan þrjú í gær. Það dróst verulega á langinn en samningsaðilar höfðu þá setið sleitulaust tvo daga þar á undan við að koma honum saman.
Fjölmiðlar voru svo boðaðir til ríkissáttasemjara á tíunda tímanum að sem ljóst var að kjarasamningar væri í höfn og það var margt um manninn þegar kom að því að undirrita nýja samninga.

„Þessir samningar og það útspil stjórnvalda sem þeim fylgir mun verða grundvöllur og getur orðið grundvöllur að víðtækri sátt. Verið grundvöllur þess að við getum skapað hér bæði efnahagslega- en ekki síður félagslega stöðugleika til næstu ára,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra við kynningu á Lífskjarasamningnum í gær.
Formaður VR segir fall flugfélagsins WOW hafa haft áhrif á kjaraviðræðurnar en að stéttarfélagið hafi náð að halda í kröfur sínar þrátt fyrir ekki náð 425 þúsund króna lágmarkslaunum í lok samningstímans.
„Þetta var skelfilega erfið staða þar á meðal og við þurfum að fara nánast aftur að teikniborðinu en náðum þó að halda í okkar kröfur, þá er ég að tala um launaliðinn þegar við vorum að miða við fjögur hundruð tuttugu og fimm þúsund kallinn að við náum honum inn ef að ákveðnar forsendur verða til staðar í efnahagslífin,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

„Ég mun sannarlega mæla með þessum samningum og auðvitað er ég bjartsýn að fólk samþykki þessa samninga við munum fara rækilega í það að kynna þá fyrir félagsmönnum. Við náttúrlega fórum fram með mjög einbeittar og markvissar kröfur sem að við höfum fylgt eftir af fullri alvöru en við höfum staðið í þessari baráttu mánuðum saman. Við komumst ekki lengra og ég átti í mjög upplýstu og heiðarlegu samtali við mína samninganefnd sem að samþykkti þá afstöðu mína sem að ég stend við. Við mátum það svo að við kæmumst ekki lengra,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar að lokinni kynningu á Lífskjarasamningnum í gær.
