Enski boltinn

Peningarnir streyma frá Liverpool til umboðsmannanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool mennirnir Dominic Solanke, Alisson Becker, Roberto Firmino, Nathaniel Clyne, Joe Gomez og Fabinho.
Liverpool mennirnir Dominic Solanke, Alisson Becker, Roberto Firmino, Nathaniel Clyne, Joe Gomez og Fabinho. Getty/ Andrew Powell
Liverpool borgaði umboðsmönnum langmest af öllum liðunum í ensku úrvalsdeildinni á síðasta ári.

Alls fóru 43,8 milljónir punda frá Liverpool til umboðsmanna en það eru 6,9 milljarðar í íslenskum krónum.

Liverpool borgaði umboðsmönnum sautján milljón punda meira en næsta félag sem var Chelsea með 26,8 milljónir punda. Næstu liðin á eftir voru síðan Manchester City með 24,1 milljón punda og Manchester United með 20,8 milljónir punda.

 



Alls borguðu öll úrvalsdeildarfélögin umboðsmönnum 260,6 milljónum punda frá febrúar 2018 til janúar 2019. Með því rústuðu þeir gamla metinu sem var 211 milljónir árið á undan.

Liverpool eyddi stórum upphæðum í nýja leikmenn á síðasta ári en þeir sóttu menn eins og Alisson, Naby Keïta, Fabinho og Xherdan Shaqiri fyrir 2018-19 tímabilið.

Liverpool borgaði umboðsmönnum átján milljónum punda meira á síðasta ári en árið á undan þegar félagið sótti Virgil van Dijk, Mohamed Salah, Alex Oxlade-Chamberlain og Andrew Robertson.

Enska knattspyrnusambandið gefur ekki út sundurliðun á því hvað hver og einn umboðsmaður er að fá í tekjur í gegnum félagsskipti skjólstæðinga þeirra.

Þetta nýja met og mikil aukning á greiðslum til umboðsmanna undanfarin ár hefur samt aukið pressuna á því að það verði tekið á þessum ofurtekjum umboðsmanna knattspyrnumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×