Enski boltinn

Sancho efstur á óskalista Solskjær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sancho hefur skorað átta mörk og lagt upp 13 í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Sancho hefur skorað átta mörk og lagt upp 13 í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. vísir/getty
Ungstirnið Jadon Sancho er efst á óskalista Ole Gunnars Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United, í sumar. Félagið er tilbúið að borga meira en 100 milljónir punda fyrir enska kantmanninn. Indepedent greinir frá.

Hinn 18 ára Sancho hefur slegið í gegn með Borussia Dortmund á tímabilinu og er stoðsendingahæstur í þýsku úrvalsdeildinni. Sancho er einnig búinn að vinna sér sæti í enska landsliðinu og hefur leikið fjóra leiki með því.

Dortmund fékk Sancho frá Manchester City 2017. Hann lék sína fyrstu leiki með aðalliði Dortmund á síðasta tímabili og í vetur hefur hann verið í lykilhlutverki hjá þeim gulu og svörtu sem eru með tveggja stiga forskot á toppi þýsku deildarinnar.

Sancho á enn þrjú ár eftir af samningi sínum við Dortmund og staða félagsins er því nokkuð sterk. Þrátt fyrir það er ólíklegt að Dortmund segi nei við tilboði í Sancho sem hljóðar upp á meira en 100 milljónir punda.

United mætir Wolves á Molineux í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:45. United er í 5. sæti deildarinnar. Með sigri á Úlfunum fer liðið upp í 3. sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×