Enski boltinn

„Kannski besti leikvangurinn í heimi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Tottenham fyrir utan nýja leikvanginn.
Stuðningsmaður Tottenham fyrir utan nýja leikvanginn. Getty/Laurence Griffiths
Stuðningsmenn Tottenham fá að upplifa langþráða stund annað kvöld þegar Tottenham liðið spilar sinn fyrsta leik á nýja leikvangi félagsins.

Tottenham ætlaði að byrja að spila á leikvanginum síðasta haust en ekki tókst að klára framkvæmdir við hann í tíma. Það þurfti síðan átta mánuði í viðbót til að ganga frá vellinum og gera hann tilbúinn í að hýsa heimaleiki Tottenham í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni.

Tottenham hefur spilað á Wembley leikvanginum síðan 2017 og er því búinn að vera fjarri heimavígstöðum sínum í eitt og hálft tímabil.





Nýi leikvangurinn ber nafnið „Tottenham Hotspur Stadium“ eins og er en hann mun síðan fá nýtt nafn. Leikvangurinn er staðsettur á sama stað og gamli White Hart Lane en það er ólíklegt að hann fái þó nafnið nýi White Hart Lane.

Tottenham mun væntanlega selja nafnið til einhvers fyrirtækis og völlurinn mun síðan bera nafn þess eins og Emirates hjá Arsenal eða Ethiad hjá Manchester City.

Fyrsti heimaleikur Tottenham á vellinum er á móti Crystal Palace á morgun. Liðið spilar síðan Meistaradeildarleik á vellinum á móti Manchester City í næstu viku.

Breska ríkisútvarpið heyrði hljóðið í stuðningsmönnum Tottenham og hvað þeim finnst um nýja leikvanginn sem tók aðeins lengri tíma að klára en áætlanir sögðu til um. Það má sjá það hér fyrir neðan.



Stuðningsmennirnir eru í skýjunum með völlinn, sumir orðlausir en allir mjög stoltir af nú stærsta leikvangi félags í London. „Kannski besti leikvangurinn í heimi,“ hafði blaðamaður BBC eftir stuðningsmanni Spurs.

Tottenham Hotspur Stadium tekur 62.062 manns í sæti og ýtir þar með Emirates úr efsta sætinu yfir stærsta félagsleikvanginn í London.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×