Enski boltinn

Mesut Özil loksins farinn að hlýða stjóranum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Özil fer hér með stutta bæn fyrir leikinn í gærkvöldi.
Mesut Özil fer hér með stutta bæn fyrir leikinn í gærkvöldi. Getty/Stuart MacFarlane
Arsenal vann flottan sigur á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gær og knattspyrnustjórinn Unai Emery virðist loksins vera búinn að ná til Þjóðverjans Mesut Özil.

Mesut Özil átti mjög góðan leik í 2-0 sigrinum á Emirates í gær og stjórinn hefur tekið hann í sátt eftir að hafa sett þann þýska hvað eftir annað út í kuldann á þessu tímabili.

„Ég er ánægður með alla leikmenn okkar og Mesut hjálpar okkur með sínum gæðum og sinni vinnusemi,“ sagði Unai Emery eftir leikinn.





Já þið lásuð rétt. Mesut Özil var að fá hrós frá knattspyrnustjóranum sínum fyrir vinnusemi. Það eru breyttir tímar hjá Arsenal liðinu og Özil er loksins farinn að hlýða stjóranum sínum.

Fyrir sigurinn á Newcastle í gær hafði Mesut Özil, launahæsti leikmaður Arsenal, aðeins byrjað inn á í þremur leikjum frá öðrum degi jóla.

Enskir fjölmiðlamenn hafa sett mikla pressu á Unai Emery til að fá skýringar á þessu en Emery sagði að Mesut Özil yrði að vera stöðugur á æfingum og í leikjum án þess að vera meiddur eða veikur. Özil hefur sem dæmi misst af óvenju mörgum leikjum vegna veikinda.





Mesut Özil fékk tækifærið í gær og var að mörgum talinn besti maður vallarins.

„Mesut er núna spila eins og við viljum að hann geri, bæði innan leikkerfisins og hvað varðar taktíkina. Hann er duglegur og ofan á það er hann líka að gefa okkur gæði,“ sagði Unai Emery.

Með sigrinum komst Arsenal upp fyrir bæði Tottenham og Manchester United og alla leið upp í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×