Innlent

Sigmundur og Davíð einir nefndir til sögunnar í greinargerð um orkupakkann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Davíð Oddsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eru einu íslensku stjórnmálamennirnir sem nefndir eru á nafn í greinargerð Þriðja orkupakkans.
Davíð Oddsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eru einu íslensku stjórnmálamennirnir sem nefndir eru á nafn í greinargerð Þriðja orkupakkans. Vísir
Stjórnartillaga um hinn svokallaða Þriðja orkupakka hefur verið birt á vef Alþingis og dreift til Alþingismanna. Í ítarlegri greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni er drepið á álitaefnum sem upp hafa komið vegna fyrirhugaðra breytinga á fjórða viðauka við EES-samninginn, auk þess sem aðkomu Davíðs Oddssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að orkupakkaferlinu eru gerð skil.

Greinargerðin með tillögunni, sem lögð er fram í nafni utanríkisráðherra, telur 20 blaðsíður. Þar er m.a. minnst á hinn stjórnskipunarlega fyrirvara sem gerður er við samþykkt pakkans, þ.e. að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB.

Það verði auk þess ekki reist eða áætluð „nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni,“ eins og það er orðað í greinargerðinni, en ætla má að þar sé vísað til lagningu raforkustrengs sem Alþingi þyrfti þá að samþykkja.

Sæstrengur Sigmundar

Reglulega hefur verið rætt um að strengja sæstreng á milli Íslands og Bretlands á undanförnum árum og áratugum, eins og getið er í greinargerðinni. Þar er vísað til skýrslna sem starfshópur stjórnvalda skilaði árið 2016 þar sem ýmsir þættir þess voru skoðaðir. „Hluti af þeirri vinnu var skýrsla í kjölfar könnunarviðræðna milli íslenskra og breskra stjórnvalda um málið en í þær viðræður var farið í kjölfar fundar þáverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, með þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, í nóvember 2015,“ segir í greinargerðinni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, funduðu meðal annars í Alþingishúsinu í október árið 2015.Vísir/Vilhelm
Sigmundur, ásamt öðrum meðlimum Miðflokksins, leiðir hins vegar baráttuna gegn innleiðingu Þriðja orkupakkans í dag. Orkupakkinn er Miðflokknum svo hugleikinn að hann var fyrsta efnislega stefnumálið sem rataði í nýja stjórnmálaalyktun flokksins, sem samþykkt var á vetrarfundi Miðflokksins um helgina. „Flokkurinn samþykkir hvorki afsal á fullveldi Íslendinga yfir orkuauðlindinni né fyrirsjáanlega hækkun á raforkuverði hér á landi,“ segir í ályktuninni. Þar er þó hvergi fjallað um sæstreng, ekki frekar en í kröfunum sem gerðar eru vegna upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn.

Aðeins er minnst á tvo íslenska stjórnmálamenn í greinargerðinni, fyrrnefndan Sigmund og Davíð Oddsson, sem nú er ritstjóri Morgunblaðsins. Rétt eins og Sigmundur hefur Davíð lýst efasemdum um Þriðja orkupakkann. „Erfitt væri að ímynda sér að þing­menn Sjálf­stæð­is­flokks­ins muni standa að þessu máli, að minnsta kosti ekki þeir fáu sem hlupust ekki undan merkjum í Ices­a­ve,“ skrifaði Davíð meðal annars í Reykjavíkurbréfi síðastliðið haust.

Fyrsti orkupakki Davíðs

Davíð hafði þó óbeina aðkomu að Þriðja orkupakkanum, eins og rakið er í greinargerðinni. Það gerði Davíð þegar hann fór fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á tíunda áratugnum og fram yfir aldamót. Ríkisstjórn hans samþykkti Fyrsta orkupakkann árið 2003, auk þess sem undirbúningur að Öðrum orkupakkanum hófst á hans vakt.

„Samkvæmt innleiðingu fyrsta orkupakkans í raforkulög skyldi vinnsla og sala raforku rekin í markaðskerfi á samkeppnisgrundvelli. Samhliða því voru settar reglur um starfsemi fyrirtækja sem önnuðust flutning og dreifingu raforku í því skyni að stuðla að samkeppni og vernda hagsmuni neytenda. Um leið og lögin tóku gildi tók uppbygging raforkumarkaðar á Íslandi mið af reglum EES-svæðisins og um leið innri markaðs ESB,“ segir til útskýringar í greinargerðinni.

Hana má nálgast í heild sinni hér. Neðst í greinargerðinni má jafnframt nálgast 16 fylgiskjöl með helstu gögnum sem vísað er til. Ekki liggur fyrir hvenær Þriðji orkupakkinn verður tekinn til umræðu í þingsal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×