Erlent

Sisi gert kleift að sitja áfram á valdastóli

Gagnrýnendur segja egypska þingið lítið annað en afgreiðslustofnun fyrir Sisi forseta.
Gagnrýnendur segja egypska þingið lítið annað en afgreiðslustofnun fyrir Sisi forseta. Vísir/EPA
Egypskir þingmenn samþykktu að breyta stjórnarskrá landsins í dag til að framlengja núverandi kjörtímabil Abduls Fattah al-Sisi forseta um tvö ár og gera honum kleift að bjóða sig fram til þriðja kjörtímabils. Tillögur um að veita Sisi frekar völd yfir dómsmálum liggja einnig fyrir þinginu.

Samkvæmt núverandi stjórnarskrá ætti Sisi að láta af embætti þegar öðru fjögurra ára kjörtímabili hans lýkur árið 2022. Breytingarnar sem þingmenn samþykktu í dag lengja núverandi kjörtímabil hans um tvö ár og leyfa honum að bjóða sig aftur fram árið 2024. Hann gæti þannig setið á forsetastóli til 2030, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Leggja þarf breytingarnar fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu innan þrjátíu daga. Netsérfræðingar fullyrða að egypsk stjórnvöld hafi lokað aðgangi að tugum þúsunda vefsíðna til að torvelda aðgang að vefsíðu þar sem undirskriftum gegn stjórnarskrárbreytingunum er safnað. Á næstu dögum er búist við því að þingmenn samþykki frumvörp um að festa völd hers landsins enn frekar í sessi og auka völd forsetans.

Sisi komst til valda þegar herinn steypti Mohammed Morsi af stóli árið 2013. Morsi var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins en fyrir valdaránið höfðu mótmæli gegn honum geisað. Sisi var fyrst kjörinn forseti árið 2014. Hann náði endurkjöri með 97% atkvæða í fyrra en helstu andstæðingar hans hættu ýmist við framboð eða voru handteknir.

Sem forseti hefur Sisi verið sakaður um berja niður andóf af offorsi og látið handtaka tugi þúsunda manna. Þingið er skipað stuðningsmönnum Sisi og hafa stjórnarandstæðingar sakað það um að vera lítið annað en afgreiðslustofnun fyrir forsetann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×