Skoðun

Tækifærið er núna

Erla Tryggvadóttir skrifar
Fátt er meira rætt um á kaffistofum landsmanna en áhrif okkar á hlýnun jarðar. Hvað er hægt að gera til þess að sporna við þessari þróun? Ljóst er að allir þurfa að leggja sitt á vogarskálarnar til þess að svörtustu spár um afleiðingar hlýnunar jarðar rætast ekki.

En stöldrum aðeins við — það felast nefnilega alltaf tækifæri í áskorunum. Nú hafa fyrirtæki gullið tækifæri til þess að mynda sér skýra sérstöðu í umhverfismálum —  og mynda sér þar með skýrt samkeppnisforskot.

Sjálfbærni og samfélagsábyrgð að leiðarljósi

Rannsóknir á neysluvenjum þúsaldarkynslóðarinnar (e. millennials) hafa sýnt fram á  að hún lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Þessi kynslóð gerir kröfur til þeirra fyrirtækja sem hún verslar við — og þeirra vara sem hún neytir. Svo má ekki gleyma þeirri staðreynd að þessi kynslóð gerir einnig kröfur til þeirra fyrirtækja sem hún kýs að starfa fyrir — að þau fyrirtæki hafi sjálfbærni og samfélagsábyrgð að leiðarljósi. Viðhorf þessarar kynslóðar er því skýrt. Fyrirtæki verði að taka ábyrgð — og framleiða vörur sínar í sátt og samlyndi við umhverfið.

Skýrt samkeppnisforskot — samfélaginu til heilla

Alþjóðlega ráðstefnan What Works fór fram dagana 1.-3. apríl í Hörpu. Þar kom saman fjölbreyttur hópur einstaklinga með ólíkan bakgrunn frá alþjóðlegum fyrirtækjum, samtökum, ríkjum og stofnunum til að ræða samfélagslega ábyrgð, sjálfbærni og félagslegar framfarir um allan heim.

Brýnt er að allir hugsi um hvað sé hægt að gera betur. Allir þurfa að leggja sitt á vogarskálarnar; fyrirtæki, stofnanir, stjórnvöld, fjárfestar og síðast en ekki síst, einstaklingar. Allir verða leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að róttækum breytingum með samfélagsábyrgð að leiðarljósi. Slíkt skilar ekki einungis betri samfélögum —  heldur líka betri fjárhagslegri afkomu til lengri tíma. Sjálfbærni og samfélags ábyrgð er nefnilega góður bísness.

Tækifærið er því núna. Aldrei hefur verið jafn mikilvægt að hugsa til lengri tíma — og marka sér skýrt samkeppnisforskot, samfélaginu til heilla. Að gera hlutina á umhverfisvænni hátt — og spara nokkrar krónur í leiðinni. Með skýru markmiði og ásetningi — græða allir, ekki satt?

Höfundur er verkefnastjóri hjá Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja / Icelandic center for CSR




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×