Tvær vítaspyrnur Pogba tryggðu United mikilvægan sigur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pogba fagnar síðari markinu.
Pogba fagnar síðari markinu. vísir/getty
Manchester United vann mikilvægan sigur í baráttunni um Meistaradeildarsæti er liðið vann 2-1 sigur á West Ham á Old Trafford í dag.

Það var fínn kraftur í United í upphafi fyrri hálfleiks og fengu þeir tækifæri til að komast yfir. Þeir fengu svo vítaspyrnu á nítjándu mínútu sem Paul Pogba skoraði úr en brotið var á Juan Mata.

Staðan var 1-0 í hálfleik en það var ljóst að leikmenn West Ham voru klárir í síðari hálfleik. Þeir jöfnuðu í upphafi síðari hálfleiks en Felipe Anderson skoraði eftir sendingu Manuel Lanzini.

Hörmulegur varnarleikur United enn eina ferðina en Felipe var aleinn á fjærstönginni. Marcus Rojo steinsofandi í bakverðinum en United náði aftur tíu mínútum fyrir leikslok.

Eftir mistök í vörn West Ham slapp Anthony Martial einn í gegn og Ryan Fredericks gat ekki gert neitt annað en að brjóta á honum. Aftur fór Pogba á punktinn og skoraði af miklu öryggi.







Sigurinn skýtur United í fimmta sætið með 64 stig, upp fyrir Arsenal, og er liðið tveimur stigum á eftir Chelsea sem er í sjötta sætinu. Arsenal getur skotist aftur upp fyrir United með sigri á Watford á mánudagskvöldið.

Lánleysi hins vegar yfir West Ham sem er í ellefta sæti deildarinnar með sextán tapleiki í 34 leikjum í deildinni í vetur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira