Innlent

Þrír saman á einni vespu óku gegn einstefnu og höfnuðu á bíl

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Piltarnir þrír og ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á sluppu allir ómeiddir.
Piltarnir þrír og ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á sluppu allir ómeiddir. Vísir/vilhelm
Réttindalaus piltur er ók vespu gegn einstefnu í Keflavík um helgina endaði för sína með því að aka á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Tveir piltar til viðbótar sátu á vespunni með drengnum. Pilturinn er aðeins þrettán ára en vespan sem hann ók var án hraðatakmarka og jafnframt ótryggð, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Piltarnir þrír og ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á sluppu allir ómeiddir. Lögreglan á Suðurnesjum tilkynnti atvikið til forráðamanna drengjanna og til barnaverndar.

Þá hafa rúmlega tuttugu ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur undanfarna daga. Sá sem hraðast ók mældist á 146 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90. 

Einnig voru höfð afskipti af allmörgum ökumönnum vegna gruns um vímuefnaakstur eða önnur brot í umferðinni, svo sem akstur án ökuréttinda. Einn hinna síðastnefndu ökumanna var stöðvaður nú í þriðja sinn fyrir að aka sviptur ökuréttindum. Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af fimm bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×