Skoðun

Gapastokkurinn

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Frumvarp Þórdísar Kolbrúnar dómsmálaráðherra um að meiðyrði varði ekki lengur opinberum refsingum er framfaramál. Þar með er verið að aðlaga meiðyrðalöggjöfina að ríkjandi túlkun á tjáningarfrelsi og einnig er verið að tryggja að þeir sem verða fyrir meiðyrðum geti sótt rétt sinn.

Tjáningarfrelsið er hornsteinn lýðræðisins og eitt af því sem aðgreinir okkur frá einræðisríkjunum. Þar er hægt að refsa fólki fyrir skoðanir og ummæli með fangelsisvist og öðrum opinberum refsingum og varla hægt að ímynda sér neitt jafn þrúgandi eins og að geta ekki tjáð hug sinn.

En tjáningarfrelsið verður ekki bara varið með lögum og reglum. Menning og tíðarandi skiptir máli. Því miður er farið að bera á því að einstakir hópar eru í raun farnir að ritstýra opinberri umræðu í landinu. Ofsafengin viðbrögð t.d. á netinu við ummælum eru til þess fallin að draga úr áhuga fólks til að tjá sig um málefni líðandi stundar. Vanalega er þessi ritskoðun færð í búning hinnar upplýstu umræðu, viðkomandi nær ekki upp í nef sér fyrir hneykslan og hinn „seki“ er kallaður öllum illum nöfnum, gerðar upp hinar verstu hvatir, gott ef viðkomandi er ekki gjörspillt handbendi o.s.frv.

Verst er kannski að það skiptir máli hver segir hvað. Hinir og þessir eiga ekkert með að tjá sig um ákveðin málefni, nota ekki réttu hugtökin eða eru ekki á réttum aldri eða af réttu kyni. Ég ætla ekki að nefna dæmi, þið þekkið þetta úr umræðunni.

En með öðrum orðum: einræðisstjórnir setja þegna sína í fangelsi fyrir rangar skoðanir, við setjum hvert annað í opinberan gapastokk.






Skoðun

Sjá meira


×