Skoðun

Ég kynni hið nýja sambúðarform

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar
Nýverið hóf ég sambúð með æskuvinkonu minni. Ástæða sambúðarinnar er einföld, við erum báðar leigjendur og einstæðar mæður. Þetta var sumsé skynsamleg sparnaðarhagræðing. Leigumarkaðurinn á Íslandi er svo mannfjandsamlegur að ég held að samyrkjubúskapur af þessu tagi verði brátt þrautalending fyrir einstæða foreldra sem vilja síður gista með börn sín á víðavangi.

Það léttir allt heimilishald og barnauppeldi þegar maður hefur aðra fullorðna manneskju sér við hlið. Meiri stuðningur, minna basl jafngildir betri líðan. Ég mæli með þessu.

Nú hef ég ekki verið í sambúð með manneskju af sama kyni síðan um tvítugt en það er göldrum líkast. Það er til dæmis stundum bara búið að elda mat og taka til! Stundum er líka búið að þvo þvott og jafnvel brjóta saman og ganga frá honum!

Ég er að verða fimmtug og þekki því fáa karlmenn sem vita hvernig föt komast hrein í fataskápa. Ég veit reyndar ekki hvernig þetta er hjá nútímafólkinu. Það kannski bara étur hör- og bambusfötin sín þegar þau óhreinkast til að menga ekki veröldina með sápunotkun.

Ég held því miður að margir karlmenn, sem búa nú víst heima til þrítugs, trúi því enn að óhrein föt gangi í hægðum sínum inn í þvottavélina og setji hana af stað. Þvotturinn vippi sér svo yfir í þurrkarann eða hengi sig út á snúru og labbi svo að sjálfsögðu samanbrotinn ofan í skúffur og skápa. Ég minnist þess með mildi þegar maðurinn minn heitinn fann uppáhaldsgallabuxurnar sínar í buxnaskúffunni og sagði glaður: „Nei, þessar bara orðnar hreinar!“ Svo knúsaði hann þær innilega eins og til að þakka þeim fyrir ómakið.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×