Innlent

Skýra þurfi reglugerð um niðurgreiðslu tannréttinga barna með skarð í gómi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Mynd/Stjórnarráðið
Forstjóri Sjúkratrygginga segir að skýra þurfi betur reglur um greiðsluþátttöku vegna tannréttinga barna með skarð í gómi. Hún segir stofnunina fara að þeim reglum sem henni séu settar. Foreldrar barna með skarð í gómi hafa lengi barist fyrir því að fá tannréttingar barna sinna niðurgreiddar hjá Sjúkratryggingum Íslands. Þrátt fyrir breytingu á reglugerð um áramótin hafa Sjúkratryggingar haldið áfram að synja slíkum beiðnum.

Rætt var við föður stúlku sem þetta á við um í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í vikunni en þeim hefur ítrekað verið synjað um greiðsluþátttöku vegna tannréttinga. Tilgangur reglugerðarinnar sem tók gildi um áramótin var að tryggja þessum börnum betri þjónustu.

„Þetta stendur raunverulega á því að þetta voru tiltölulega afmarkaðar breytingar sem voru gerðar á reglugerðinni og eftir stendur bæði í reglugerðinni, sem sagt nýju, og lögunum um sjúkratryggingar, að hvert og eitt tilvik beri að meta með tilliti til alvarleika,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Umhyggja, félag langveikra barna, sendi á mánudaginn áskorun til allra þingmanna, heilbrigðisráðherra, félags- og barnamálaráðherra og Sjúkratrygginga, um að bæta úr málinu.

„Þetta mál snýst fyrst og fremst um ákvörðun um hvað skuli niðurgreitt af hinu opinbera. Það er bara ekki ákvörðun Sjúkratrygginga. Við fylgjum þeim reglum sem hið opinbera tekur um greiðlsuþátttöku,“ segir María. „Ég veit að heilbrigðisráðherra hefur hrundið því ferli af stað að reglugerðin og það hve víðtæk greiðsluþátttakan er, að þetta verði endurskoðað og væntanlega verður það gert í samráði við SÍ.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×