Enski boltinn

Skoraði næstum því þrjú mörk í bikarúrslitaleiknum en fékk samt pistil frá Pep

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling fagnar með enska bikarinn um helgina.
Raheem Sterling fagnar með enska bikarinn um helgina. Getty/Alex Morton
Raheem Sterling kórónaði frábært tímabil sitt um helgina með því að skora tvö mörk Manchester City liðið tryggði sér þriðja titilinn á leiktíðinni.

Raheem Sterling sagðist hafa farið til Manchester City til að verða betri leikmaður og það sást um helgina að knattspyrnustjórinn Pep Guardiola hikar ekki við að nota hvert tækifæri til að kenna enska landsliðsmanninum.

Það var því ekki nóg fyrir Raheem Sterling að skora næstum því þrjú mörk og hjálpa Manchester City að vinna 6-0 sigur. Hann komst ekki í gegnum verðlaunaafhendinguna án þess að fá aðeins að heyra það frá knattspyrnustjóra sínum.

Pep Guardiola fór yfir nokkur atriði með Raheem Sterling fyrir framan myndavélarnar á Wembley. Raheem Sterling var ekki alveg sáttur fyrst en þeir skildu síðan á léttum nótum enda mikil fagnaðarlæti fram undan.





Bæði mörk Raheem Sterling komu á síðustu tíu mínútum leiksins en hann var næstum því búinn að stela marki Gabriel Jesus í fyrri hálfleiknum. Markið var um tíma skráð á Sterling en endaði sem mark Gabriel Jesus.

Það er ekki mikið hægt að kvarta yfir tímabili Raheem Sterling. Hann var þrennuna með Manchester City og endaði með 25 mörk og 15 stoðsendingar í öllum keppnum á leiktíðinni.

Það þarf hins vegar greinilega mun meira en það til að sleppa við pistil frá knattspyrnustjóranum Pep Guardiola.

Það er því ekkert skrýtið að Manchester City sé búið að vinna enska meistaratitilinn tvö ár í röð, hafi slegið fjölda stiga- og markameta á síðustu tveimur árum og hafi á þessu tímabilið orðið fyrsta enska liðið til að vinna þrennu heima fyrir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×