Enski boltinn

Skrifa um 976 milljóna launatilboð frá Juve og mikinn áhuga Chelsea á Coutinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maurizio Sarri fagnar með Evrópudeildarbikarinn á miðvikudagskvöldið.
Maurizio Sarri fagnar með Evrópudeildarbikarinn á miðvikudagskvöldið. Getty/Michael Regan
Enskir og ítalskir fjölmiðlar halda áfram að velta sér upp úr framtíð Maurizio Sarri hjá Chelsea.

Maurizio Sarri vann Evrópudeildina með Chelsea á miðvikudagskvöldið en það er ekki enn komið á hreint hvort ítalski knattspyrnustjórinn verður áfram á Brúnni.

Daily Mirror fjallar um rausnarlegt tilboð til Maurizio Sarri frá Juventus og áhuga Chelsea á að kaupa Philippe Coutinho frá Barcelona.





Chelsea mun að öllum líkindum selja Eden Hazard til Real Madrid og þeir vilja fá Philippe Coutinho í staðinn takist félaginu að losna úr félagsskiptabanni UEFA. Chelsea er í banni til 2020 en félagið heldur staðfastlega fram sakleysi sínu og ætlar jafnvel að áfrýja til Íþróttadómstólsins.

Barcelona keypti Philippe Coutinho frá Liverpool fyrir 142 milljónir punda fyrir aðeins átján mánuðum síðan en Brasilíumaðurinn hefur ekki átt upp á pallborið á Nývangi. Eftir vonbrigðin í Meistaradeildinni er búist við því að Barcelona selji leikmanninn í sumar.

Maurizio Sarri á eftir tólf mánuði á samningi sínum og hann fær um fimm milljónir punda í laun á ári eða 787 milljónir íslenskra króna.





Max Allegri er hættur hjá Juventus og félagið leitar að nýjum knattspyrnustjóra. Samkvæmt frétt Daily Mirror hefur Juventus boðið Sarri 6,2 milljónir punda í árslaun eða 976 milljónir. Það yrði kauphækkun upp á 189 milljónir á ári eða 15,8 milljónir meira á mánuði.

Fali Ramadani, umboðsmaður Maurizio Sarri, er á leiðinni til London til að fá á hreint hvort Chelsea ætli að halda Sarri en Frank Lampard, stjóri Derby og Chelsea goðsögn, hefur verið orðaður við stjórastólinn á Stamford Bridge.

Hinn sextugi Maurizio Sarri var að vinna sinn fyrsta titil á dögunum en hann kom Chelsea í Meistaradeildina og vann Evróputitil á sínu fyrsta tímabili með liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×