Flestar ábendingarnar snúa að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningum. Notendur geta sent inn ábendingar í gegnum ábendingarform á heimasíðu, í gegnum Facebook-síðu fyrirtækisins eða með símtali. Einnig annast eftirlitsmenn gæðaúttektir.
Óeðlilegur fjöldi ábendinga að mati borgarfulltrúa
Kolbrún segist sjálf hafa átt von á um það bil hundrað til tvö hundruð ábendingum en ekki á þriðja þúsund og yfir. Flestar voru ábendingarnar árið 2016 eða 3.654 talsins. Þeim fækkaði svo niður í 2.536 árið 2017 en árið 2018 hafði þeim fjölgað á ný um rúmlega tvö hundruð.„Þetta er afar sérstakt. Flokkur fólksins spyr hvort kafað hafi verið ofan í þessu mál og unnið að því að fækka ábendingum verulega,“ segir í bókuninni. Þá er spurt hvort flestar kvartanir tengist tímasetningum eða hvort það snúi meira að háttsemi vagnstjóra.
„Niðurstaðan í huga borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar hann hefur séð þetta svar er að það er eitthvað mikið að í þessu fyrirtæki þegar kemur að þjónustu við farþega,“ skrifar Kolbrún og bætir við að slíkur fjöldi ábendinga sé ekki eðlilegur.