Skoðun

Unga fólkið og aðalatriðin

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Umhverfi, jafnrétti og heilbrigði voru þema á sérstökum þingfundi ungmenna á þjóðhátíðardeginum í gær. Unga fólkið sem fyllti þingsalinn í Alþingishúsinu var með skýr og öflug skilaboð til okkar sem fylgdumst með. Ég treysti því að þau rati víðar á næstu dögum.

Ungt fólk hefur heldur betur látið í sér heyra undanfarið þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. Sem betur fer. Og skilaboðin frá þinghúsinu í gær voru líka sterk. Eins var með jafnréttismálin. Ungmennin beindu kastljósinu að hverju málefninu á fætur öðru þar sem við þurfum að gera betur; stöðu fatlaðra, réttindum hinsegin fólks, launamisrétti kynjanna og stöðu innflytjenda.

Það var hins vegar nálgun þessa flotta hóps í heilbrigðismálum sem hafði mest áhrif á mig.

Merkilegt nokk snerist umræðan ekki um hvernig skipulagið við að lækna sjúka eigi að vera. Ekki hvort það sé betra að þessi en ekki hinn sinni þjónustunni. Hvernig viðkomandi eining eigi að vera samsett, hvar staðsett og hvernig rekin. Hverjir hljóti pólitíska náð fyrir augum ráðamanna og hverjir ekki. Líklega var þetta ekki nefnt af því að þessum hópi þótti annað vera mikilvægara þegar kemur að heilbrigðismálum þjóðar. Að minnsta kosti þegar kemur að umræðu og ákvörðunum í þingsal.

Í þingsalnum í gær tók þessi hópur ungmenna umræðu um heilbrigðismál upp á annað og hærra plan. Þau höfðu meiri áhuga á því að viðhalda heilbrigði. Umræðan um heilbrigðismál snerist þannig um samgöngur og lýðheilsu. Hvernig stjórnvöld geti búið um hnútana svo að fólk eigi þess kost að ferðast á heilnæman hátt á milli staða. Hvernig tryggja megi börnum og unglingum virkan þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Áhrif snjalltækjanotkunar á þroska barna í fjölbreyttu samhengi. Í stuttu máli; hvernig við búum hér til aðstæður og umhverfi sem styðja við heilbrigðan lífsstíl, vellíðan og hamingju.

Komið fagnandi með ykkar heilbrigðu sýn á heilbrigðismál!

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×