Viðskipti innlent

Andri Már greiddi sig frá málsóknum

Hörður Ægisson skrifar
Andri Már Ingólfsson er fyrrverandi aðaleigandi Primera air samstæðunnar.
Andri Már Ingólfsson er fyrrverandi aðaleigandi Primera air samstæðunnar. Fréttablaðið/GVA
Andri Már Ingólfsson, fyrrverandi aðaleigandi Primera Air sem var tekið til gjaldþrotaskipta síðasta haust, reiddi fram tæplega 200 milljónir króna í reiðufé til þrotabús flugfélagsins gegn því að fallið yrði frá málsóknum á hendur honum, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Til viðbótar samþykkti Andri Már að falla frá þeim kröfum sem hann hafði lýst í þrotabúið, eins og áður hefur komið fram, en kröfur hans og félaga á hans vegum, þar á meðal félags í eigu dönsku ferðaskrifstofunnar Bravo Tours, námu samanlagt ríflega tveimur milljörðum króna.

Samkomulag náðist á milli Andra Más og þrotabús Primera Air á Íslandi, sem lögmaðurinn Eiríkur Elís Þorláksson stýrir, í síðasta mánuði. Andri Már var næststærsti kröfuhafi búsins á eftir Arion banka.

Rekstur Prim­era Air og erlendra dótturfélaga stöðvaðist í október í fyrra þegar félögin voru tekin til gjaldþrotaskipta. Lýstar kröfur í búið nema rúmlega 10 milljörðum króna

Bankinn þurfti að færa niður tæplega þrjá milljarða króna í ábyrgðum og lánveitingum vegna gjaldþrotsins.

Fram kom í skýrslu skiptastjóra sem var lögð fram á skiptafundi þrotabús flugfélagsins í febrúar að rannsóknir hans hefðu „leitt í ljós að mögulegt sé að fyrirsvarsmenn félagsins hafi bakað því tjón“ í að minnsta kosti tveimur tilvika.

Auk þess var tekið fram að skiptastjórinn hefði það til skoðunar „hvernig staðið var að reikningsskilum þrotamannsins að öðru leyti“.

Í skýrslunni sagði jafnframt að athugun skiptastjóra á reikningsskilum flugfélagsins kynni að leiða til þess að þrotabúið gæti sótt frekari fjárkröfur á hendur þeim sem báru ábyrgð á reikningsskilunum. Endurskoðendur Primera Air voru frá ráðgjafarfyrirtækinu Deloitte.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×