27 ára gamall danskur ríkisborgari hefur játað að hafa í janúar síðastliðnum ætlað að smygla tólf kílóum af hassi til Færeyja með Norrænu.
Þá hefur 26 ára gamall íslenskur karlmaður játað að hafa haft umrædd fíkniefni í vörslu sinni í sölu- og dreifingarskyni um ótilgreindan tíma þar til smygla átti þeim úr landi.
Ákæra á hendur mönnunum var gefin út í maí síðastliðnum en auk þeirra er þriðji maðurinn ákærður í málinu. Ákæra hefur hins vegar ekki verið birt honum og hefur Vísir því ekki upplýsingar um sakargiftir á hendur honum.
Í ákæru kemur fram að þriðjudaginn 8. janúar á þessu ári hafi lögreglan fundið 12,7 kíló af hassi í farangri danska mannsins þar sem hann var á leið um borð í Norrænu til Færeyja.
Íslendingurinn er einnig ákærður vegna þessara efna en að auki fundust tæp 900 grömm af hassi við leit á heimili hans.
Götuvirði tólf kílóa af hassi hér á landi eru rúmlega 29 milljónir króna þar sem grammið kostar um 2300 krónur samkvæmt verðkönnun SÁÁ. Þá er almennt miðað við það að smygl á einu kílói af hassi jafngildi einum mánuði í fangelsi.
Játaði að hafa ætlað að smygla tólf kílóum af hassi til Færeyja
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
