Menning

Báðir kunna þeir að rappa?…

Gunnþórunn Jónsdóttir skrifar
Laddi er einn ástsælasti leikari þjóðarinnar og Króla langar ekkert meira en að verða leikari. Þeir eru góð blanda af eldri og yngri kynslóðinni og mætast senn á sviði í söngleik.
Laddi er einn ástsælasti leikari þjóðarinnar og Króla langar ekkert meira en að verða leikari. Þeir eru góð blanda af eldri og yngri kynslóðinni og mætast senn á sviði í söngleik. Fréttablaðið/Valli
Söngleikurinn We will rock you verður settur upp hér á landi í fyrsta sinn og hefjast sýningar þann 9. ágúst nk. í Háskólabíói. Söngleikurinn var saminn af Ben Elton í samstarfi við hljómsveitina Queen og frumsýndur árið 2002 á West End í London. Söngleikurinn sló öll aðsóknarmet leikhússins Dominion Theatre og var sýndur fyrir fullu húsi fram til ársins 2014.

We will rock you hefur verið settur á svið á Broadway í New York, í Ástralíu, á Spáni, í Rússlandi og víðar. Einvala lið leikara og söngvara stígur á svið og gefur sig hlutverkunum á vald. Ragnhildur Gísladóttir fer með hlutverk Killer Queen og á móti henni verður Björn Jörundur Friðbjörnsson í hlutverki Kashoggi. En einnig verða þarna þeir Þórhallur Sigurðsson og Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktir sem Laddi, einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, og Króli, ein skærasta poppstjarnan.

Þeir eru að hittast í fyrsta sinn augliti til auglitis þegar blaðamann ber að garði en hafa þó vissulega vitað hvor af öðrum. Djúpar samræður um golf eru þó þegar hafnar og fer vel á með þeim félögum.

Króli: „Ég sá þig reyndar á Gló fyrir þremur vikum og ætlaði að heilsa þér.“

Laddi: „Já, ég sá á eftir þér líka. Ég hefði heilsað þér en ég sá bara svona aftan á þig. En ég hef nú fylgst nokkuð vel með þér. Ég held upp á strákana.“

Króli: „Já, innilega sömuleiðis. Við erum líka báðir Gaflarar.“

Og báðir spila þeir golf. Annar þó meira en hinn.

Laddi: „Ég spila mikið og hef verið í golfi undanfarin 30 ár og er að keppa líka. Ég er í landsliði öldunga.“

Þegar viðtalið er tekið er Laddi á leið til útlanda að keppa í golfi. Hann segist lítið hafa verið í leikhúsi undanfarin ár sem sé aðallega vegna þess að sviðið skarast við golfið. Hann segist frekar vilja vinna fyrir sjálfan sig og finnst vont að vera fastur. Golfið á hug hans og hjarta. En í þetta sinn kallar söngurinn á hann.

Hvaða hlutverk farið þið með í söngleiknum?

Laddi: „Tja, ég verð nú að segja eins og er að ég hef ekki hugmynd um það. Við fáum handritið fljótlega og engar æfingar eru byrjaðar eins og er.“

Króli: „Ég er svona hálfu skrefi á undan þér. Ég er ekki kominn með handrit en ég veit að ég fer með hlutverk Galíleós í sýningunni.

Laddi: „Það er eitt aðalhlutverkið, skilst mér.“

Króli: „Jú, það er rétt og það er mikill heiður.“

Hafið þið tekið þátt í söngleik áður?

Laddi: „Já, ég hef gert það oft áður og mér finnst það eitt það skemmtilegasta sem maður gerir í leikhúsi, skemmtilegra en að leika bara.“

Króli: „Enda ertu frábær söngvari. Ég fékk símtal þegar ég var á leið til London og var boðaður í prufu. Ég er svona aðeins að skoða landslagið í leiklist. Mig hefur alltaf langað til þess að verða leikari. Ég er að hugsa um að sækja um í skóla fyrir næsta haust. Mig langar að vera erlendis í leiklistarskóla og vonandi gengur það eftir. Það væri alveg gott að bæði taka smá frí frá Íslandi og að prófa eitthvað nýtt. Ég er ótrúlega spenntur fyrir því. En það er eiginlega fáránlegt að veita mér svona stórt tækifæri. Ég vona bara að ég bregðist engum.“

Sem Króli mun mjög ólíklega gera. Samhliða því að vera tónlistarmaður hefur Króli farið með hlutverk í Óvitum sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu 2014 en einnig hefur hann farið með hlutverk í þáttaröðinni Ófærð, kvikmyndinni Georg Bjarnfreðarson og áramótaskaupum svo eitthvað sé nefnt.

Hvetur þú hann til þess Laddi?

Laddi: „Já, algjörlega. Ég fór í leiklistarskóla í Los Angeles, UCLA og það var mjög gaman. En ég staldraði þó aðeins við í eina önn og kom svo heim aftur. Þá sótti ég um í Félag íslenskra leikara og var samþykktur þar. Ég er ekki lærður leikari. En ég er búinn að vinna í svo mörg ár með alls konar leikstjórum og mótleikurum og það er lærdómurinn. Þar lærir maður raunverulega leiklist, eða mér var a.m.k. sagt það.“

Króli: „Talandi um ólærða en frábæra leikara, þá varð ég hissa þegar ég heyrði að Eggert Þorleifsson væri ekki lærður leikari.“

Laddi: „Nei, einmitt. Við vorum allir þarna á svipuðum tíma, Eggert Þorleifs, Egill Ólafs og ég. Við vorum teknir inn því við vorum búnir að vinna mikið við leiklist. Maður lærir afskaplega mikið á vettvangi.“

Eruð þið miklir Queen-aðdáendur?

Laddi: „Ég er meira Freddy Mercury-aðdáandi en auðvitað Queen í leiðinni. Freddy var bara náttúrulega einstakur maður.“

Króli: „Ég er meira Brian May maður.“

Þeir hlæja.

Króli: „Nei, þeir eru allir flottir og það verður ótrúlega erfitt að reyna að syngja lögin þeirra.“

Laddi: „En það verður aldrei eins og á ekkert að vera eins heldur.“

Króli: „Nei, nákvæmlega. Það mun enginn geta gert það. Ég get talað fyrir okkur báða þegar ég segi að við munum ekki reyna að vera hann. Við gerum þetta á okkar hátt.“

En talandi um tónlist. Hér höfum við Króla sem er í hipphoppsenunni, hvernig fílar þú svoleiðis tónlist Laddi og rapp bara yfirhöfuð?

Laddi: „Ég er hrifinn af allri tónlist í raun og veru. Það fer bara eftir því hver gerir hana og hversu vel. Rapp finnst mér mjög skemmtilegt. Ég hef gert nokkur rapplög í gegnum tíðina. Ég held ég hafi verið með fyrsta rapplagið á Íslandi.“

Króli: „Þetta er í annað skipti sem ég sit í viðtali með mikilli goðsögn sem vill meina það að hann hafi gert fyrsta íslenska rapplagið og það var Bubbi. Bubbi vill meina það að árið 1994 hafi hann gert fyrsta íslenska rapplagið með sænskum pródúser. Þetta var á plötunni Þrír heimar.“

Getum við ekki afsannað þetta?

Laddi: „Jú, jú, ég get gert það! Ég get bent á eitt lag, það heitir Björgúlfur bréfberi og ég samdi það ’82 eða ’83 og það kom á næstu plötu sem var 1984. Ég var úti í Ameríku þá, í UCLA, og skrifaði Halla bróður bréf og þetta var svo skemmtilegt bréf að ég rappaði það og gaf út. Svo söng Þuríður Sigurðardóttir inn á milli og Gunnar Þórðarson gerði tónlistina. Ég kalla þetta rapp sko.“

Hvað er rapp?

Laddi: „Já, ég veit það ekki beint.“

Þeir hlæja.

Króli: „Ég pæli mjög mikið í þessu, því að tónlistin sem við Jói P. erum búnir að gera upp á síðkastið verður seint kölluð rapp, allavega af minni hálfu. Síðustu tvær plötur hafa ekki verið rapp. En ég held að fólk vilji flokka alla urban-senuna, sem er R&B, rokkað popp, hipphopp og mjög venjulegt popp allt undir sama hatt, hipphopp. Þessi áratugur eða tískubylgja sem er í gangi núna verði alltaf kallað „rapptíminn“ eða „hipphopptíminn“. En þetta er svo miklu meira og stærra. Ég hef hreinlega ekki rappað í örugglega heilt ár. En fólk má kalla þetta það sem það vill. Ég lít ekki á mig sem meiri rappara frekar en einhvern sem er að gefa út popptónlist.“

Króli er við það að gefa út nýja plötu ásamt Jóa P. og kemur nýtt tónlistarmyndband út með þeim núna 1. júlí nk. með laginu Tveir koddar. Á plötunni koma fram ýmsir gestir, margir sem þeir hafa ekki unnið með áður. Án efa mikil spenna fyrir gripnum meðal aðdáenda.

Króli, hver er uppáhalds karakterinn þinn hjá Ladda?

Króli: „Ætli það sé ekki Eiríkur Fjalar? Er það ekki sá fyrsti sem allir muna eftir, þekkja ekki allir einhvern Eirík Fjalar?“

Laddi: „Jú, hann er minn uppáhalds líka. Það er Eiríkur Fjalar í flestum. Hann leynist víða. Hann er sympatískur og hann er maðurinn sem ætlar að verða eitthvað og slá í gegn. Það er pínulítið af mér í honum, má segja.“

En að lokum, hlakkið þið til samstarfsins?

Laddi: „Já, bara mjög svo.“

Króli: „Já, það verður mikill heiður að deila sviðinu með þessum manni. Þetta er eiginlega draumi líkast. Líka allt fólkið sem við erum að vinna með er algjörlega frábært.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.