Árásin átti að vera á fáein skotmörk, ratsjárstöðvar og eldflaugaskotpalla. Ekki liggur fyrir hvers vegna Trump á að hafa dregið ákvörðun sína til baka en Íranir skutu niður eftirlitsdróna Bandaríkjahers í gær og ætla má að loftárásirnar eigi að hafa verið svar við því.
Forsetinn fundaði með leiðtogum flokkanna í báðum deildum bandaríska þingsins í gær, rétt eins og öryggisráðgjöfum sínum, en engin formleg yfirlýsing um næstu skref Bandaríkjanna í harðnandi deilum við Írani lá fyrir að fundahöldunum loknum. Ekkert hefur heldur heyrst frá stjórnvöldum í Teheran.
Bandarísk flugmálayfirvöld sendu hins vegar út neyðartilkynningu á bandarísk flugfélög í gær þar sem þau eru vöruð við því að fljúga í gegnum íranska lofthelgi. Er það vegna aukinnar hættu á hernaðarátökum á svæðinu og pólitískrar ólgu, eins og það er orðað í tilkynningunni.
Bandaríkjamenn hafa þó fleiri horn í síðu Írana. Þeir hafa til að mynda sakað stjórnvöld í Teheran um skemmdarverk á olíuflutningaskipum í Ómanflóa og ætla að fjölga í herliði sínu á svæðinu. Íranir segja Bandaríska drónann hafa vanvirt íranska lofthelgi og ætla að auka á byrgðir sínar af auðguðu úrani.
Samskipti Bandaríkjanna og Írans hafa auk þess versnað til muna frá því Trump tók við embætti. Hann hefur rift kjarnorkusamningnum sem Íran gerði við Bandaríkin og önnur stórveldi er snerist um að Íran skyldi frysta kjarnorkuáætlun sína gegn afléttingu viðskiptaþvingana. Meðal annars vegna þess að Bandaríkin telja Íransstjórn fjármagna hryðjuverkasamtök.
Í kjölfar riftunarinnar hafa Bandaríkin lagt á nýjar þvinganir. Hafa einnig skilgreint byltingarvarðsveit Írans sem hryðjuverkasamtök og hafa utanríkismálagreinendur vestanhafs velt fram þeirri spurningu hvort sambandinu sé viðbjargandi.