Skoðun

Sýnum flóttafólki mannúð

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Fjölskylda telur sig komna í öruggt skjól. Börnin fara í skóla, eignast vini og taka þátt í félagslífi. Unglingsdóttir gengur í hljómsveit og nýtur þess að spila tónlist. Getur hún loksins lifað áhyggjulausu lífi unglingsins? Feðgar flýja heimaland sitt. Ástæðuna þarf vart að tvínóna; þeir koma frá Afganistan, eins og fjölskyldan, þar sem ríkt hefur stríðsástand áratugum saman. Eftir volk enda þeir á Íslandi. Geta þeir loksins átt öruggt líf? Notið hversdagsins án þess að hafa áhyggjur af því hvort þeir muni einhvern tímann eignast heimili?

Því miður er svarið við báðum þessum spurningum nei. Á Íslandi, árið 2019, getum við ekki veitt Zainab og fjölskyldu hennar, eða Asadullah, Mahdi og Ali það eina sem þau öll í raun þrá; öruggt hversdagslíf. Þau eru ekki að biðja um mikið, aðeins að fá að lifa og starfa, sofna og vakna, að þurfa ekki að óttast um líf sitt. Við ætlum hins vegar að vísa þeim öllum til Grikklands með þeim skilaboðum að þau verði að sjá um sig sjálf.

Þetta getur ekki verið svona. Þessu verður að breyta. Ekki bara fyrir þetta umrædda fólk, heldur mun fleiri. Því það verða fleiri, hafa verið fleiri. Þó að athygli okkar beinist af og til að einstökum málum, nafngreindu fólki, þá mallar kerfið endalaust hvort sem það nær í umræðuna eður ei. Fólki, hvers nöfn ná aldrei inn í fjölmiðla, er vísað frá landi, sagt að hér sé það ekki velkomið. Og án efa borið við einhverjum reglum og starfsvenjum, kafkaíska skrifræðið hverfur aldrei.

Ég er hluti af því skrifræði. Ég er alþingismaður og ber sem slíkur ábyrgð á lagaumhverfinu, eins og hinir 62 kollegar mínir. Ábyrgð okkar sem myndum stjórnarmeirihlutann er enn ríkari en annara. Ég hef ekki staðið mig hvað þá ábyrgð varðar. Jú jú, eitthvað hefur maður potast, fengið samþykkta stofnun ráðgjafastofu fyrir innflytjendur, tjáð mig einstaka sinnum á samfélagsmiðlum, rætt við fólk sem aðstoðar flóttafólk, átt símtöl og samtöl um það hvort hægt sé að breyta kerfinu. En kerfið er samt óbreytt. Það er ólíðandi.

Ég veit að ég er naívur þegar að þessum málum kemur. Í raun hef ég þá skoðun að ef fólk vill búa á Íslandi þá eigi það að fá að gera það. Alveg eins og mér finnst að Íslendingar eigi að mega búa í öðrum löndum, enda gera þeir það margir hverjir. Allt fólk hefur andlit, nöfn, sínar sögur, langanir, þrár, vonir og væntingar. Lífssaga manns á flótta frá Sýrlandi, svo dæmi sé tekið, er ekki minna merkileg en mín eða Jóns og Gunnu í næstu götu. Öll eigum við rétt á mannsæmandi lífi.

Raunsæisfólkið segir að ekki sé hægt að opna landið upp á gátt. Við ráðum ekki við það, samfélagið sé lítið og ég veit ekki hvað. Æ, ég veit það ekki, eigum við ekki bara að byrja á því að hjálpa eins mörgum og við mögulega getum (við getum hjálpað mun fleiri en í dag) og sjá hvað gerist? Er ekki ágætt að láta reyna á þanþol samfélagsins, það breytist þá bara. Ef langalangafa mínum hefði verið vísað frá landi þegar hann kom hingað frá Schleswig-Holstein, væri ég til dæmis ekki hér í dag.

Ég kann ekkert annað en að reyna að vekja athygli á þessum málum, reyna að hreyfa við hlutum og spyrjast fyrir, tala um það sem betur má fara, reyna að koma í veg fyrir að við eyðileggjum líf fólks með því að senda það út á guð og gaddinn. Einhverjum mun finnast það lítilfjörlegt, vilja róttækar aðgerðir strax. Það er gott, þannig á það að vera og ég tek af auðmýkt við réttlátri reiði yfir því að ég hafi ekki gert meira. Að stjórnvöld hafi ekki gert meira. Að Alþingi hafi ekki gert meira.

Jú, ég kann eitt annað. Það þarf nefnilega að breyta kerfinu sem mallar undir niðri og vill helst gera það þegjandi og hljóðalaust. Því að ef það er ekki gert þá kemur bara upp næsta mál og næsta og næsta. Og í stað Zainab og Mahdi og hinna verður það fólk með önnur nöfn, önnur andlit, en alveg jafn mikilvægt fólk. Jafn mikilvæg og þú og ég.

Þess vegna þarf að breyta kerfinu. Það þarf að virkja þingmannanefnd sem fylgjast á með framkvæmd útlendingalaga, því ég skal hundur heita ef sú þverpólitíska sátt sem náðist um samþykkt þeirra laga náði yfir þá framkvæmd sem nú er við höfð. Einhverjum þarf að finnast það léttvægt, á nú að virkja enn eina nefndina, en ef sú nefnd breytir framkvæmd laganna þá er til mikils unnið.

Og svo þurfum við að koma í veg fyrir brottvísanir þeirra sem hér hefur verið um rætt. Leyfum þeim að eiga sitt eðlilega hversdagslíf á Íslandi eins og mér og þér. Sýnum þeim mannúð.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×