„Í morgun heimsóttu strákarnir forsetann á Bessastaði. Það var stór stund fyrir þá og tók Guðni vel á móti þeim og hvatti þá til dáða,“ segir í færslu Facebook-síðunnar Leiðin frá Got Agulu á Rey Cup frá því í gær.
Hjónin Rosmary Atieno og Paul Ramses stofnuðu árið 2009, með hjálp íslenskra vina, góðgerðarfélagið Tears Children and Youth Aid. Félagið rekur skóla, leikskóla og fótboltalið í Kenýa ásamt því að valdefla konur og styrkja þær til fjárhagslegs sjálfstæðis.
Þetta gera þau með því að selja kenískt handverk á Íslandi. Lengi hefur verið stefnt að því að fótboltalið skólans, sem samanstendur af 12-15 ára drengjum komi til landsins til að keppa á mótinu, sem nú hefur orðið að veruleika.
„Paul sagði frá skólastarfinu í Got Agulu og Bára frá söfnuninni fyrir ferð drengjanna til Íslands. Síðan fengu allir kleinur, vínarbrauð og ávaxtasafa,“ segir í færslu liðsins um heimsóknina á Bessastaði.