HB Grandi hf. og Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. hafa náð samkomulagi um kaup fyrrnefnda félagsins á sölufélögum þess síðarnefnda í Asíu. Kaupverðið samsvarar alls 31,1 milljón evra, næstum 4,4 milljörðum króna, og er tilgangur kaupanna „að styrkja stöðu HB Granda og sjávarútvegs á Íslandi á mikilvægum og vaxandi mörkuðum í Asíu,“ eins og það er orðað í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Þar segir að um sé að ræða kaup HB Granda á öllu hlutafé í sölufélögum Útgerðarfélagsins í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi sem tengist framangreindum félögum. Öll hin keyptu félög eru í fullri eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Búið er að undirrita kaupsamninga en kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki stjórna HB Granda og Útgerðarfélagsins, sem og samþykkt hluthafafundar HB Granda. Fyrirhugað er að kaupverðið verði greitt með útgáfu 133.751.606 nýrra hluta í HB Granda til Útgerðarfélagsins.
„Þetta samsvarar aukningu hlutafjár um 7,3% sem aftur myndi leiða til þess að Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. myndi eftir viðskiptin eiga samtals 42,31% heildarhlutafjár í HB Granda hf. Unnin verður áreiðanleikakönnun á hinum keyptu félögum og skýrsla um kaupin samkvæmt lögum um viðskipti tengdra aðila og verður hún kynnt hluthöfum með fundarboði. Hlutabréfin verða afhent við greiðslu kaupverðsins,“ segir í tilkynningunni.
Þar er þess jafnframt getið að umrædd félög hafi staðið að sölu íslenskra sjávarútvegsafurða á Asíu markaði allt frá árinu 1989 og að þau hafi selt rúmlega 38 þúsund tonn af sjávarafurðum á síðasta ári. Velta félaganna hafi numið samtals 146 milljónum evra, hagnaður eftir afskriftir, skatta og fjármagnsliði (EBITDA) 4,2 milljónum evra og bókfært eigið fé félaganna hafi verið 11,5 milljónir evra.
HB Grandi kaupir sölufélög í Asíu af ÚR
Stefán Ó. Jónsson skrifar

Mest lesið

Varað við svörtum eldhúsáhöldum
Neytendur

Fylltu tankinn fyrir tólf hundruð krónur vegna kommuvillu
Viðskipti innlent

Hagnaður jókst um tæpan helming milli ára
Viðskipti innlent

Frá Seðlabankanum í sýndarheima CCP
Viðskipti innlent

Tuttugu þúsund færri farþegar á milli ára
Viðskipti innlent

„Þetta verður bara heiðarlegur bisness, ég nenni engu kjaftæði“
Viðskipti innlent


Segir skilið við Grillmarkaðinn
Viðskipti innlent

Truflanir á greiðsluhirðingu Rapyd
Viðskipti innlent

Góð ráð: Draumastarfið á draumavinnustaðnum
Atvinnulíf