Enski boltinn

Maguire mætti ekki á æfingu hjá Leicester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Maguire fær ráð frá liðsfélaga sínum Jamie Vardy. Þeir mætast mögulega sem mótherjar á komandi tímabili.
Harry Maguire fær ráð frá liðsfélaga sínum Jamie Vardy. Þeir mætast mögulega sem mótherjar á komandi tímabili. Getty/Michael Regan
Það var enginn Harry Maguire á æfingu Leicester City í dag og voru menn fljótir að tengja það við áhuga Manchester United á að kaupa enska landsliðsmiðvörðinn.

Sky Sports News segir frá „skrópi“ enska landsliðsmannsins í dag.

Hvort sem að þetta séu einhverjar verkfallsaðferðir hjá Harry Maguire sjálfum eða hvort að það sé eitthvað loksins að gerast í hans málum er ekki vitað.





Manchester United og Leicester City hafa ekki getað náð saman um kaupverð því Leicester vill fá mun meira fyrir leikmanninn en United hefur boðið.

Harry Maguire vill sjálfur komast til Manchester United en hann var stuðningsmaður félagsins þegar hann var ungur.

Manchester United vantar heimsklassa miðvörð og ekki minnkaði þörfin þegar Eric Bailly meiddist í undirbúningsleik á dögunum. Eric Bailly verður væntanlega frá í að minnsta kosti sex vikur en hann er líka fastagestur á meiðslalistanum.

Sky Sports News sagði frá því á dögunum að Maguire hafi látið Leicester City vita af því að hann vilji fara áður en glugginn lokar 8. ágúst næstkomandi.

Ed Woodward er enn í viðræðum við Leicester City um kaupverðið á Maguire en United hefur ekki viljað borga þær 80 milljónir punda sem Leicester vill fá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×