Í pistli veðurfræðings kemur fram að mjög hlýr loftmassi verði yfir landinu næstu daga og líklegt að nokkur hitamet falli. Í dag eru austan og suðaustlægar áttir, þurrt og bjart að mestu norðanlands, rigning eða súld sunnanlands en einnig fyrir vestan síðar í dag.
„Hæsti hiti sumarsins til þessa mældist 12. júní á Skarðsfjöruvita eða 25,3 gráður og gaman að fylgjast með hvort hærri hiti muni mælast í dag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Á morgun lítur út fyrir að hiti fari yfir 20 stig í flestum landshlutum en mun svalara verður austan til á landinu og við Húnaflóa þar sem þokubakkar ráða ríkjum.
„Talsverður óstöðugleiki verður í loftmassanum yfir suðvestanverðu landinu og aukast þá líkurnar á þrumuveðri með tilheyrandi hellidembum.“
