Enski boltinn

Segir Benitez bara hafa hugsað um peninga

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rafael Benitez er kominn til Kína
Rafael Benitez er kominn til Kína vísir/getty
Eigandi Newcastle segir Rafael Benitez hafa hugsað fyrst og fremst um peninga, svo sjálfan sig og sett Newcastle í síðasta sæti.

Benitez yfirgaf Newcastle í sumar og tók við kínverska liðinu Dalian Yifang. Spánverjinn hafði verið í samningaviðræðum við Newcastle um framlengingu á samningi sínum síðasta vetur en ekki náðist samkomulag.

Mike Ashley, eigandi Newcastle, segir að það hafi verið peningamál sem urðu til þess að ekki náðust samningar.

„Miðað við það sem hann segir í fjölmiðlum þá heldur maður að félagið komi fyrst, svo Rafa og peningar í þriðja sæti. En ég segi að hann hafi hugsað fyrst um peninga, svo Rafa og félagið síðast,“ sagði Ashley við Daily Mail.

„Hann tók auðveldu leiðina, tók peningana og fór til Kína. Ég varð fyrir vonbrigðum með hann.“

Samningur Benitez við kínverska félagið er sagður vera upp á 25 milljónir punda á ári.

„Ef hann hefði farið aftur til Real Madrid eða í topplið í ensku úrvalsdeildinni þá hefði ég skilið þetta. En þetta snerist allt um peninga og hann hefði átt að segja það í upphafi.“

„Hann bað um 50 prósenta launahækkun hjá okkur og ég held að hann hafi gert það því hann vissi að við gætum ekki orðið við því. Ef við hefðum samþykkt það þá hefði eitthvað annað komið upp.“

Stuðningsmenn Newcastle hafa lengi verið nokkuð óánægðir með Ashley og brotthvarf Benitez hjálpaði ekki til. Ashley segist þó hafa gert allt sem hann gat til þess að halda Spánverjanum.

„Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með hann sem stjóra, hann vann frábært starf og ég skil ekki hvernig nokkur stuðningsmaður getur haldið að ég hafi ekki viljað hafa hann.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×