Innlent

Kvenfélagskonur komast ekki í gömlu skjalagögnin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Írafossvirkjun. Fjær er Ljósafossvirkjun. Keypti Kvenfélag Grímsneshrepps hlutabréf í Sogsvirkjunum árið 1951?
Frá Írafossvirkjun. Fjær er Ljósafossvirkjun. Keypti Kvenfélag Grímsneshrepps hlutabréf í Sogsvirkjunum árið 1951? Stöð 2/Einar Árnason.
Kvenfélagskonur í Grímsnesi, sem vilja vita hvort Kvenfélag Grímsneshrepps eigi hlut í Landsvirkjun, hafa ekki komist í gamla ársreikninga félagsins til að kanna hvort félagið hafi árið 1951 keypt hlutabréf í Sogsvirkjun. Gögnin eru talin varðveitt á Héraðsskjalasafni Árnesinga á Selfossi. 

„Því miður er lokað á Héraðsskjalasafninu til 12. ágúst vegna sumarleyfa þannig að við getum ekkert grennslast um þetta fyrr en eftir þann tíma. Enda er í nógu að snúast hjá okkur í að undirbúa Grímsævintýrin á Borg 10. ágúst,“ sagði Laufey Guðmundsdóttir, formaður Kvenfélags Grímsneshrepps, í dag.

Kvennanna kjarkur og þor, heitir bókin um 100 ára sögu Kvenfélags Grímsneshrepps.
Í frétt Stöðvar 2 í fyrradag kom fram að Kvenfélagskonur vildu kanna hvort verið gæti að Kvenfélagið ætti rétt á eignarhlut í Landsvirkjun. Ástæðan er sú að í nýútkominni bók um hundrað ára sögu félagsins kemur fram að vorið 1951 hafi verið samþykkt að Kvenfélagið keypti hlutabréf í Sogsvirkjun. Árið 1966 voru Sogsvirkjanir lagðar inn í Landsvirkjun, sem hluti af stofnframlagi eigenda. 

Þeim spurningum hefur verið velt upp, að sögn Laufeyjar, hvort það hafi verið skuldabréf en ekki hlutabréf sem Kvenfélagið keypti, eða jafnvel hvort nokkur verðbréf hafi yfir höfuð verið keypt. Laufey segir svör ekki fást fyrr en búið sé að skoða gögnin. 

„Ég vonast til að sjá þetta betur í ársreikningum og bókhaldi ársins 1951,“ segir Laufey. 

„Svo er spurning hvort Landsvirkjun lumi á einhverjum gögnum frá gömlu Sogsvirkjun sem gæti gefið okkur skýrari svör,“ segir formaður Kvenfélags Grímsneshrepps. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um málið:

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×