Viðskipti innlent

Flug milli Akureyrar og Bretlands úr sögunni með gjaldþroti Super Break

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Farþegar sem komu til Akureyrar á vegum ferðaskrifstofunnar stíga hér frá borði.
Farþegar sem komu til Akureyrar á vegum ferðaskrifstofunnar stíga hér frá borði. ISAVIA/AUÐUNN
Breska ferðaskrifstofan Super Break, sem boðið hefur upp á beint flug milli Bretlands og Akureyrar, er hætt rekstri og hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta.

„Vegna þess þrönga tímaramma sem við höfum vegna bágrar lausafjárstöðu og þrátt fyrir íhuga mögulegra fjárfesta, hefur okkur ekki tekist að tryggja fjármagn frá bönkum né náð að selja reksturinn,“ segir í tilkynningu frá félaginu, sem greint er frá á vefmiðlinum York Press.

Super Break bauð upp á beint flug milli Bretlands og Akureyrar frá árinu 2017. Uppi voru fyrirætlanir um að halda áfram að bjóða upp á slík flug en nú er ljóst að ekkert verður af því.

Í samtali við RÚV sagði Arnheiður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, að brotthvarf Super Break af markaði væri áfall fyrir þá sem hafi komið að verkefninu, það er fluginu á milli Akureyrar og Bretlands. Viðskipti ferðaþjónustufyrirtækja víða á Norðurlandi séu í uppnámi þar sem mörg félög hafi byggt rekstur sinn í kring um fyrirhugaðar flugferðir.

Rekstrarstöðvun fyrirtækisins hafi komið á óvart og ekkert hafi legið í loftinu sem gæfi vísbendingu um að neitt slíkt væri yfirvofandi. Kveðst hún í viðtalinu fá nánari upplýsingar um málið á morgun og í kjölfari verið kannað hvort annar aðili geti tekið verkefnið að sér.

Ferðamenn útiloki fjarlæga staði frekar í sparnaðarskyni

Arnheiður hefur áður sagt að erfitt reyndist að fá ferðamenn á Norðurlandið sökum fjarlægðar við höfuðborgina. Margir tækju þá ákvörðun að ferðast ekki um landið þvert og endilangt með það fyrir augum að spara fjármuni.

Eins sagði hún erfitt að fá þá ferðamenn sem þó heimsækja Norðurland til að dvelja þar í meira en eina nótt.


Tengdar fréttir

Miklar breytingar eru í vændum á Akureyri

Oddvitar framboðanna á Akureyri eru um margt sammála um hver stóru málin séu á næsta kjörtímabili. Tryggja skuli leikskólapláss og efla atvinnulífið í bænum. Ný könnun bendir til að nýr meirihluti taki við.

Frá Bretlandi til Akureyrar

Breska ferðaskrifstofan Super Break hefur á næstu dögum sölu á ferðum til Norðurlands með beinu flugi frá Bretlandi. Er það í fyrsta sinn sem beint áætlunarflug er milli Akureyrar og Bretlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×