Hann segir nauðsynlegt að bregðast hratt við þeirri þróun sem nú á sér stað. Fjölmennt var við minningarathöfnina í dag þar sem jökullinn Ok var formlega kvaddur, en hann missti titil sinn sem jökull árið 2014. Guðmundur Ingi segir Ísland nú þegar hafa tekið ákveðin skref í þágu loftslagsmála, til að mynda í samgöngumálum, en það þurfi meira til.
Sjá einnig: Vonar að leiðtogar Norðurlandanna lýsi yfir loftslagsneyðarástandi
„Við þurfum að taka skipaflotann líka og síðan þarf að taka flugið þannig að það er eitt, annað er síðan að það verður líka mikil losun gróðurhúsaloftegunda frá landi og þar þarf að taka á þessum málum líka, bæði með því að endurheimta land og fara betur með það land sem fyrir hendi er.“

„Við erum og verðum ávallt að vera í fremstu röð.“
Aðspurður hvort áhugaleysi almennings á málaflokknum sé vandamál segir Guðmundur Ingi svo ekki vera. Almenningur hafi mikinn áhuga á umhverfismálum en stjórnmálamenn þurfi að vera leiðandi á því sviði.
„Við stjórnmálamenn gefum þá von sem þarf að gefa til þess að almenningur komi með í þessa vegferð, til þess að fyrirtæki komi með í þessa vegferð og það er gríðarlega mikilvægt að við getum í sameiningu tekið á þessu stóra viðfangsefni.“