Skoðun

Fótsporin okkar

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Fótsporið okkar er heitt umræðuefni, sem sýnir okkur að tungumálið dansar í takt við viðhorfin. Flestir skilja að fótsporið er mikilvægt. Og allir vilja kolefnisjafna. Við vitum að við eigum að minnka kjötneyslu og matarsóun, hjóla frekar en að keyra allra okkar ferða, fljúga minna og viljum síður að helgarsteikin ferðist yfir hálfan hnöttinn til að geta lent á matarborðinu okkar. Við viljum boðlegar aðstæður dýra í matvælaiðnaði og borgum gjarnan meira fyrir egg ef hænan var hamingjusöm og fyrir lífrænt ræktað grænmeti. Við viljum meðvitaða matseld og berum matvörur heim í öðru en plastpoka. Blessunarlega erum við meðvituð um mikilvægið.

Niðurstöður ASÍ um brot á vinnumarkaði segja líka sögu af fótspori. Það er ekki bara íslenskur veruleiki. Við vitum að grunsamlega ódýr fatnaður er að minnsta kosti líklegur til að vera framleiddur af fólki sem ekki alltaf nýtur réttinda og boðlegra kjara. Og viljum við ekki að lífræni bananinn sé ræktaður af fólki sem fékk greidd sanngjörn laun? Eða að helgin á hótelinu sé ekki niðurgreidd af fólkinu sem þrífur herbergin?

Nokkrar opinberar stofnanir og fyrirtæki kolefnisjafna núna starfsemi sína og geta líka sem stórkaupendur vöru og þjónustu haft mikil áhrif með því að gera kröfur. Norsk heilbrigðisyfirvöld hafa til dæmis farið í aðgerðir, meðvituð um sitt fótspor, og hafa sem kaupendur vöru haft áhrif á aðbúnað launafólks erlendis. Við hin getum svo kannski reynt að skoða fleiri þætti í okkar daglega lífi og bætt fótsporum á listann. Við liggjum réttilega andvaka yfir plastinu sem ógnar tilveru okkar en ættum líka að vilja kaupa bómullarpoka sem er framleiddur af fólki sem fékk greidd full laun fyrir vinnu sína.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×