Fyrirtækið Barnabílstólar.is hefur keypt upp lager Tryggingafélagsins VÍS af barnabílstólum og er byrjað að leigja þá út, en VÍS hætti í apríl útleigu á bílstólum til viðskiptavina sinna.
Mikil eftirspurn er eftir barnabílstólum til útleigu og segir Guðmundur Birgir Ægisson, eigandi Barnabílstóla.is og fyrrverandi starfsmaður VÍS, að viðskiptavinir hans hafi tekið vel í hugmyndina.
„Hvert barn þarf að meðaltali þrjá barnabílstóla á ævinni og getur það verið mjög kostnaðarsamt fyrir foreldra. Ég þekki þennan bransa vel, á sjálfur barn og fyrst það er enginn annar að gera þetta þá ákvað ég bara að gera þetta sjálfur,“ segir Guðmundur.
„Ég fór út núna í júní til framleiðanda stólanna og fór þar yfir praktísk atriði, en öryggið er sett á oddinn hjá okkur. Ef eitthvað kemur upp á eða þegar barnið stækkar þá fær fólk nýjan stól,“ segir Guðmundur.
