Hersveitirnar berjast fyrir Umbreytingaráð suðursins (STC), sem hlýtur stuðning Sameinuðu arabísku furstadæmanna, og segja að þær hafi náð stjórn á herbúðum og forseta höllinni.
Bandalagshersveitirnar sem styðja ríkisstjórnina og studdar eru af Sádum, segir að svarað verði með hernaðaraðgerðum en ríkisstjórnin sjálf segir yfirtöku STC á Aden vera tilraun til valdaráns.
Bandalagshersveitir höfðu ýtt á STC að draga hersveitir sínar úr borginni ef ekki ætti að koma til meiri átaka. Talsmenn bandalagshersveita segjast hafa hafið hernaðaraðgerðir gegn „ógn“ við stjórn landsins.
Eftir að STC náði yfirráðum á Aden á laugardag samþykktu báðar stríðandi fylkingar að leggja niður vopn en ekki er vitað hvort það vopnahlé gildi enn eftir að bandalagshersveitir greindu frá aðgerðum sínum.
Ríkisstjórn Abdrabbuh Mansour Hadi, forseta Jemen, hefur verið staðsett í Aden en hann sjálfur hefur haldið fyrir í höfuðborg Sádi-Arabíu, Riyadh.
Einn meðlima hersveita aðskilnaðarsinna sagði í samtali við fréttastofu AFP að hersveitirnar hafi náð tökum á forsetahöllinni á laugardag án átaka.
„Hermönnunum tvö hundruð í lífvarðarsveit forsetans var hleypt örugglega út úr höllinni,“ sagði aðskilnaðarhermaðurinn.
Vitni staðfesti við AFP að aðskilnaðarsinnar hafi tekið stjórn í höllinni.
Einnig hafa aðskilnaðarsinnar náð yfirráðum á heimili innanríkisráðherra og herbúðum hersveita Hadi.
Læknar án landamæra lýstu Aden sem vígvelli á laugardag og sögðu sjúkrahúsin ekki geta tekið við fleirum. Þá hafi meira en 119 sjúklingar hlotið aðhlynningu innan 24 klst. á meðan á átökunum stóð.
Meira en 70 manns, þar á meðal almennir borgarar, létu lífið, samkvæmt fréttaflutningi AP fréttastofunnar.