Lars Lagerbäck valdi ungstirnið Erling Braut Håland í norska landsliðshópinn sem mætir Möltu og Svíþjóð í undankeppni EM 2020. Þetta er í fyrsta sinn sem hinn 19 ára Håland er valinn í A-landsliðið.
Strákurinn hefur farið frábærlega af stað með Red Bull Salzburg í Austurríki. Håland hefur skorað sjö mörk í fyrstu fimm leikjum Salzburg í austurrísku úrvalsdeildinni og þá gerði hann þrennu í bikarleik með liðinu.
Salzburg keypti Håland frá Molde í fyrra. Hann skoraði 16 mörk í 30 leikjum með Molde í öllum keppnum á síðasta tímabili.
Mikla athygli vakti þegar Håland skoraði níu mörk í 12-0 sigri Noregs á Hondúras á HM U-20 ára í Póllandi í sumar. Þetta var reyndar eini leikurinn sem hann skoraði í á HM en það dugði honum til að vinna Gullskóinn.
Håland hefur leikið fyrir öll yngri landslið Noregs og fær núna tækifæri með A-landsliðinu. Hann er annar tveggja nýliða í norska landsliðshópnum. Hinn er miðjumaðurinn Mathias Normann, samherji Ragnars Sigurðssonar og Björns Bergmanns Sigurðarsonar hjá Rostov.
Håland er sonur Alf-Inge Håland sem lék 34 landsleiki á árunum 1994-2001. Hann lék í tíu ár á Englandi, með Nottingham Forest, Leeds United og Manchester City.
Lars verðlaunaði Håland með landsliðssæti eftir tíu mörk í fyrstu sex leikjunum með nýja liðinu

Tengdar fréttir

Sjáðu mörkin níu sem Håland skoraði gegn Hondúras
Bjartasta vonin í norskum fótbolta fór hamförum gegn Hondrúas á HM U-20 ára.

Sonur Hålands skoraði níu mörk í einum og sama leiknum á HM
Norski framherjinn Erling Braut Håland setti met með níu mörkum gegn Hondúras í dag.