Bíó og sjónvarp

Úrvalslið leikkvenna í hlutverkum fréttakvenna Fox News sem knésettu #MeToo yfirmann

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Stiklan fyrir kvikmyndina Bombshell hefur vakið mikla athygli og forvitni, ekki síst vegna þess hve minimalísk hún er.
Stiklan fyrir kvikmyndina Bombshell hefur vakið mikla athygli og forvitni, ekki síst vegna þess hve minimalísk hún er. Lionsgate
Framleiðslufyrirtækið Lionsgate birti í gær stiklu fyrir Kvikmyndina Bombshell sem kemur út 20. desember næstkomandi en kvikmyndin byggir á raunverulegum atburðum; #MeToo málinu sem varð yfirmanni á fréttastofu bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar Fox News að falli.

Í upphafi júlímánaðar árið 2016 tóku fréttir að spyrjast út af því að Gretchen Carlson, ein af helstu fréttakonum Fox News, hefði höfðað mál gegn yfirmanni sínum, framkvæmdastjóra og einum af stofnendum Fox News, Roger Ailes og færi nú fram með alvarlegar ásakanir um kynferðislega áreitni á hendur honum. Hún hafði um nokkurt skeið fangað áreitnina á hljóðupptöku án vitundar Ailes.

Í kjölfarið kepptust þjóðþekktir starfsmenn Fox News við stíga fram með yfirlýsingar til stuðnings Ailes. Það var þó ekki fyrr systurfyrirtæki samsteypunnar, 21st Century Fox fór að grennslast fyrir um málið en rannsóknin leiddi í ljós að fjöldi kvenna hjá fyrirtækinu hafði nákvæmlega sömu sögu að segja og Carlson.

Roger Ailes var afar valdamikill í bandarísku þjóðlífi og Gretchen Carlson þekkt fjölmiðlakona hjá Fox News.Samsett mynd/Getty
Stuttu síðar steig Megyn Kelly, fjölmiðlakona hjá fyrirtækinu sem naut virðingar í bandarísku samfélagi, einnig fram með ásakanir á hendur yfirmanninum. Það var þá sem fór að halla undan fæti hjá Ailes og trúverðugleiki hans dreginn í efa.

Ailes sagði síðan af sér 21. júlí og var gert að greiða Carlson tuttugu milljónir Bandaríkjadala í bætur. Hann lést í maí 2017, 77 ára að aldri.

Ailes var afar áhrifamikill í bandarískum fjölmiðlaheimi. Hann gegndi meðal annars hlutverki fjölmiðlaráðgjafa fjölda forseta Bandaríkjanna, meðal annars Richard Nixon, Ronald Reagan og George H.W. Bush. Þá var hann Donald Trump, núverandi forseta, innan handar í kosningabaráttunni.

Stórskotalið leikkvenna í Bombshell

Í kvikmyndinni eru sannarlega engir nýgræðingar á ferð því stórskotalið leikkvenna í Hollywood fer með helstu hlutverkin. Þannig mun Charlize Theron leika Megyn Kelly, Nicole Kidman leika Gretchen Carlson en Margot Robbie fer með hlutverk framleiðanda hjá fréttastöðinni.

Stiklan hefur farið sem eldur í sinu í Bandaríkjunum, ekki vegna þess að hún sé svo dramatísk því einmitt vegna þess að hún lætur grunsamlega lítið yfir sér. Í stiklunni fylgjum við eftir leikkonum þremur í lyftu. Andrúmsloftið er þrúgandi og fátt er sagt. Má leiða líkur að því að augnablikið sem sýnt er í stiklunni sé þegar Carlson heldur á fund yfirmannsins til að færa honum stefnuna í hendurnar.

„Ég veiti þér stöðuhækkun ef þú sefur hjá mér“

Í sjónvarpsviðtali hjá Business Insider fór Megyn Kelly ofan í saumana á áreitninni. Hún sagði að hún væri ekki ein þeirra sem tækju gróft kynferðislegt tal nærri sér, það er að segja ef um augljóst grín væri að ræða. Hún segir þó kynferðislegar umleitanir yfirmannsins hafa verið allt annars eðlis. Ailes hafi verið fúlasta alvara.

„Í fyrstu var ég fljót að afskrifa þessar kynferðislegu athugasemdir,“ útskýrði Kelly.

Það var ekki fyrr en áreitnin stigmagnaðist sem hún fór raunverulega að óttast um starfið sitt og öryggi.

„Þetta bara versnaði og versnaði og versnaði. Þetta var kynferðisleg áreitni. Þetta var svona: „Ég veiti þér stöðuhækkun ef þú sefur hjá mér.“ Jafnvel þá reyndi ég að gera lítið úr þessu og hló. Ég þóttist ekki heyra það sem ég heyrði. Ég þóttist misskilja hann því allra síst vildi ég þurfa að horfast í augu við hann og ávarpa vandann.

Ég vildi ekki þurfa að hafna honum og ég held að það sé mjög lýsandi fyrir konur í sömu aðstæðum. Þær hugsa, guð minn góður, starfið mitt er í húfi og það síðasta sem ég vil er að koma yfirmanninum mínum í uppnám og hafna honum. Maður vill ganga í augun á yfirmanninum sínum og fá hann til að hafa jákvætt viðmót gagnvart sér,“ sagði Kelly.

Ailes á að hafa læst hurðinni í hvert sinn sem fréttamaður hans ræddi við hann á skrifstofunni af ótta við að aðrir heyrðu hvað þeim færi á milli. Kelly segir að áreitnin hefði náð hápunkti í eitt skiptið þegar Ails á að hafa gert alvöru úr tali sínu og reynt að fá hana til að sofa hjá sér með því að reyna að kyssa hana og halda um hana.

Kelly segir að þetta hefði gerst þrisvar en að hún hefði jafnóðum ýtt honum frá sér. Þá segir hún að Ailes hefði spurt hana hvenær samningurinn hennar hjá Fox News rynni út.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.