Slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Suðurnesja björguðu manni úr logandi húsi við Hlíðarveg í Reykjanesbæ á fjórða tímanum í dag.
Tilkynning um eldinn barst slökkviliði um klukkan tuttugu mínútur í fjögur og var dælubíll og sjúkrabifreið þegar send á vettvang.
Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, segir í samtali við fréttastofu að þegar að var komið hafi verkefnið reynst mun umfangsmeira en reiknað hafði verið með. Ekki hefði komið fram í tilkynningunni til slökkviliðs um að maður væri innandyra í húsinu þar sem eldurinn var.
Reykkafarar fóru inn í húsið og fundu manninn. Að sögn Jóns reyndist hann nokkuð slasaður og var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.
Eldsupptök liggja ekki fyrir en Lögreglan á Suðurnesju annast rannsókn málsins.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)