Fótbolti

Einkunnir Íslendinga eftir sigurinn á Slóvökum: Elín Metta stóð upp úr

Íþróttadeild skrifar
Elín Metta fagnar. Hún er komin með þrjú mörk í undankeppni EM.
Elín Metta fagnar. Hún er komin með þrjú mörk í undankeppni EM. vísir/vilhelm
Ísland vann torsóttan 1-0 sigur á Slóvakíu í öðrum leik sínum í undankeppni EM 2021 á Laugardalsvelli í kvöld.

Elín Metta Jensen skoraði eina mark leiksins á 65. mínútu. Líkt og gegn Ungverjalandi á fimmtudaginn var hún besti leikmaður Íslands.

Ísland er með sex stig af sex mögulegum í undankeppninni. Liðið mætir Lettlandi á útivelli í næsta leik sínum í undankeppninni 8. október.

Einkunnagjöf Vísis má sjá hér fyrir neðan.

Byrjunarliðið:

Sandra Sigurðardóttir, markvörður 6

Hafði nánast ekkert að gera nema verja 2-3 hættulítil langskot Slóvaka. Gerði það litla sem hún þurfti að gera vel.

Ásta Eir Árnadóttir, hægri bakvörður 6

Stóð vaktina í vörninni vel í sínum fyrsta keppnisleik fyrir íslenska landsliðið. Gerði sig reyndar seka um slæm mistök þegar hún tapaði boltanum sem leiddi til besta færis Slóvakíu á 86. mínútu.

Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður 7

Átti stóran þátt í sigurmarkinu. Löng sending hennar fram völlinn rataði á kollinn á Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur sem skallaði áfram á Elínu Mettu. Langar sendingar Glódísar fram völlinn voru eitt helsta sóknarvopn Íslands. Átti afar náðugan dag í vörninni.

Ingibjörg Sigurðardóttir, miðvörður 6

Réði auðveldlega við máttlausar sóknaraðgerðir Slóvaka. Skilaði boltanum vel frá sér.

Hallbera Gísladóttir, vinstri bakvörður 7

Örugg í vörninni og var dugleg að styðja við sóknina. Átti nokkrar afbragðs fyrirgjafir sem samherjar hennar hefðu mátt nýta betur.

Fanndís Friðriksdóttir, hægri kantmaður 6

Byrjaði af krafti, var mjög lífleg og bjó til ágætis færi. Gaf verulega eftir eftir því sem leið á leikinn og var tekin af velli skömmu fyrir sigurmarkið.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, miðjumaður 6

Var aftarlega á miðjunni og ekki mjög áberandi. Að venju vinnusöm og kraftmikil. Brá sér í sóknina og lagði upp markið fyrir Elínu Mettu.

Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður 6

Full varfærinn í sendingum og valdi of oft öruggasta kostinn í stöðunni, sérstaklega í fyrri hálfleik. Lék betur í þeim seinni og dreif íslenska liðið áfram.

Svava Rós Guðmundsdóttir, vinstri kantmaður 5

Fékk tækifæri í byrjunarliðinu eftir frábæru innkomu gegn Ungverjalandi en sýndi ekki sitt rétta andlit í kvöld. Fór illa með gott færi í fyrri hálfleik.

Dagný Brynjarsdóttir, sóknarmiðjumaður 5

Hefði hæglega getað skorað 1-2 mörk. Hefur oftast átt betri landsleiki og spurning hvort hún nýtist landsliðinu best í þessari stöðu.

Elín Metta Jensen, framherji 8

Tók yfir leikinn í seinni hálfleik eftir að hafa verið róleg í þeim fyrri. Skoraði frábært mark og var alltaf ógnandi. Er greinilega að springa úr sjálfstrausti og hefur eignað sér framherjastöðuna í íslenska liðinu.

Varamenn:

Hlín Eiríksdóttir - (Kom inn á fyrir Svövu Rós á 55. mínútu) 7

Átti kröftuga innkomu. Lét reyna á Mariu Korenčiová skömmu áður en sigurmarkið kom. Átti svo annað ágætis skot í uppbótartíma.

Agla María Albertsdóttir - (Kom inn á fyrir Fanndísi á 63. mínútu) 6

Var ekki jafn áberandi og Hlín en átti ágæta spretti.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir - (Kom inn á fyrir Dagnýju á 80. mínútu)

Lék of stutt til að fá einkunn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×